150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði óvenjusnemma um ekki bara góð fjárlög heldur frábær sem taka á mjög mörgum þáttum í samfélaginu. Við höldum áfram uppbyggingunni, við tökum þátt í því að draga úr neikvæðum áhrifum hagsveiflunnar, vinna gegn henni með auknum fjármunum til fjárfestinga. Hér hefur fjárlaganefnd, undir dyggri forystu formannsins Willums Þórs Þórssonar, unnið frábært starf, faglegt og málefnalegt, og ég veit að við hérna inni erum öll sammála um að þannig sé í pottinn búið.

Vegna þeirra álitamála sem hafa komið upp, útúrsnúninga um að menn skilji ekki hvernig lög um opinber fjármál eru samsett, vil ég ítreka að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að allar þær rannsóknir sem nauðsynlegt er að gera verða fjármagnaðar. Bara í varasjóði eru 3 milljarðar. Það verður ekki vandamál. Allt annað er útúrsnúningur af hálfu stjórnarandstöðunnar, (Forseti hringir.) tæknilegir útúrsnúningar sem hjálpa ekki nokkrum manni. Aðalatriðið er að þær hafi nægilega fjármuni til að gera það sem gera þarf og það mun ríkisstjórnin tryggja.