150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Vissulega er verið að bæta við 200 milljónum í skatteftirliti en þær 200 milljónir voru ætlaðir í allt annað. Það var óútskýrð leið til að auka tekjur ríkisins þegar það kom hér einhver smá efnahagskreppa. Nú á að nýta þessar 200 milljónir í þetta mál. Hvað verður þá um tekjurnar sem áttu að koma þarna í staðinn, sem 200 milljónirnar áttu að auka tekjur ríkissjóðs um? Ég fatta þetta ekki. Það er mjög alvarlegur tónn sleginn hérna hjá ráðherrum sem virðast vera að opinbera það að þau skilji ekki hvernig fjárheimildir virka, hvernig eftirlit með framkvæmd fjárlaga virkar. Við þurfum að vita þetta á Alþingi. Af hverju fara 6,8 milljarðar í Alþingi og eftirlitsstofnanir þess? Af hverju eru 45,6 milljarðar í samgöngu- og fjarskiptamál? Af hverju eru 1,9 milljarðar í ferðaþjónustu o.s.frv.? Það er ekki útskýrt og þegar það er ekki útskýrt getur ríkisstjórnin, ráðherrarnir, (Forseti hringir.) gert hvað sem er við peninginn. Og á eftir þegar við skoðum og spyrjum hvernig það gekk, segja þau bara: Fínt. Okkur gekk bara vel að nota alla þessa milljarða í hvað sem við vildum. (Forseti hringir.) Þetta er bara gisk og geðþóttaákvarðanir. Þetta er ömurlegt fjárlagafrumvarp.