150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að sitja undir því hér að við séum að veikja eftirlitsstofnanir. Við höfum sett gríðarlega mikla fjármuni síðustu ár í að efla þær eftirlitsstofnanir sem sinna því hlutverki sem um hefur verið rætt hér. Eins og ég kom inn á áðan hafa, af þeim sökum að þau minnisblöð sem vísað er til komu seint fram, ekki verið gerðar fullnægjandi áætlanir og fjárlagatillögur í samræmi við 21. og 22. gr. laganna, fyrst fólk er upptekið af þeim lögum. Um hvað er kveðið á í lögum um opinber fjármál? Það er gert ráð fyrir því að ráðherra leiti fyrst leiða til að fullnýta fjárheimildir sem fyrir hendi eru áður en leitað er eftir nýjum fjárheimildum. Þau úrræði sem hér eiga við og lögin tilgreina með skýrum hætti síðan eru þau að fagráðherrar nýti fluttar afgangsheimildir frá fyrra ári, breyti skiptingu fjárveitinga í fylgiriti með millifærslu frá einu verkefni til annars innan sama málaflokks eða nýti varasjóð fyrir viðkomandi málaflokk, að fjármála- og efnahagsráðherra ráðstafi úr almennum varasjóði fjárlaga ef atvik eru með þeim hætti eða að Alþingi veiti á fjáraukalögum nýjar fjárheimildir (Forseti hringir.) eða millifæri heimildir til verkefna þegar þeirra er þörf. Við það verður staðið, að tryggja þessum stofnunum nægt fjármagn til að standa straum af þeim málum sem þar eru og því álagi sem þar er, burt séð frá einstaka málum sem pólitíkin á ekki að vera að benda á sérstaklega.