150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:35]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Besta fjárfestingin sem samfélag getur farið í er að fjárfesta í fólki. Eina leiðin áfram er að fjárfesta í fólki því að það skilar sér margfalt til baka. Við erum að fjárfesta í framtíð fólks, í framtíð barna og framtíð samfélagsins. Jú, auðvitað kostar þetta pening en ef við skoðuðum raunverulega hvað fátækt kostar samfélagið myndum við sjá að þetta er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka. En við höfum ekki verið að gera þessar rannsóknir. Við vitum ekki hvað fátæktin kostar okkur og fjárlög sem taka ekki á því að útrýma fátækt í þessu fámenna landi skortir framsýn og skortir getu til þess að takast raunverulega á við vandamál framtíðarsamfélagsins og samfélagsins í dag.