150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

umsóknir um starf útvarpsstjóra.

[15:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og fagna því. Það veldur mér reyndar áhyggjum að nú er örugglega búið að gefa einhverjum þeirra sem sóttu um starfið það til kynna að nöfn þeirra verði ekki gefin upp. En nú segir ráðherra að hún vilji, sem ég fagna mjög, gagnsæi í þessum málum og vilji að nöfnin verði birt. Það gæti væntanlega orðið til þess að einhverjir dragi nöfn sín til baka, allt í lagi með það. En ég þakka fyrir þetta og ég heiti á ráðherra að ganga eftir þessu vegna þess að nú í dag er nefnilega fresturinn að renna út. Hvað varðar hins vegar skýrslu Ríkisendurskoðunar fáum við vonandi tækifæri til að ræða hana hér í þingsal og getum þá farið betur ofan í hana. Þar er margt áhugaverðra og athugunarverðra þátta sem hægt er að fara ofan í. En aftur: Ég fagna þessu svari ráðherra og þakka fyrir það og hlakka til að ræða skýrsluna um RÚV við hana í betra tómi.