150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árunum 2019 og 2020.

438. mál
[17:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árunum 2019 og 2020 sem gengið var frá til bráðabirgða með bréfaskiptum milli stjórnvalda ríkjanna fyrr á þessu ári.

Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars árin 2019 og 2020. Hann er óbreyttur frá fyrra ári að öðru leyti en því að hann er til tveggja ára og það hámark sem Færeyingar geta veitt af loðnu eykst úr 25.000 tonnum upp í 30.000 tonn eftir að 500.000 tonna heildarkvóta er náð. Ísland fær heimild til að veiða allt að 1.300 lestir af makríl á ári innan fiskveiðilögsögu Færeyja árin 2019 og 2020.

Þjóðirnar samþykktu að hefja vinnu við að breyta fyrirkomulagi þessara samningaviðræðna með það að markmiði að gerður yrði rammasamningur til lengri tíma, en hægt yrði að breyta ýmsum atriðum, svo sem kvótum og aðgangi, miðað við aðstæður á hverjum tíma.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða 3. júní 2019. Hann öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt. Áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2018. Heildarafli þorsks verður þó ekki meiri en 2.400 lestir, heildarafli keilu ekki meiri en 650 lestir og engar veiðar eru heimilar á lúðu eða grálúðu.

Vissulega hafa samskipti við frændur okkar í Færeyjum verið óheppileg undanfarið, einkum er varðar sjávarútveg. Stefnt hefur verið að gerð nýs rammasamnings milli þjóðanna á sviði fiskveiða en ekki tekist þrátt fyrir góð tilboð af okkar hálfu. Þá tók ný fiskveiðilöggjöf gildi í Færeyjum í upphafi árs 2018 sem m.a. bannar erlendar fjárfestingar í færeyskri útgerð. Þessi löggjöf er í ósamræmi við Hoyvíkursamninginn sem heimilaði Íslendingum allt að þriðjungseignarhald í færeyskum útgerðum. Fjárfestingarbannið skaðar íslenska hagsmuni og jaðrar við beina eignaupptöku án þess að neinar bætur komi í staðinn.

Í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem tók við völdum í Færeyjum þann 14. september sl. segir að núverandi erlendar fjárfestingar í útgerð haldi gildi sínu en 25% þak verði á nýfjárfestingum.

Frumvarp um lagabreytingar þess efnis hefur verið lagt fram í færeyska lögþinginu. Þá er uppsögn Hoyvíkursamningsins sem tekur gildi um næstu áramót mikil vonbrigði og munum við leitast við að takmarka skaðann sem af uppsögninni getur hlotist. Loks eru enn lausir samningar um síld, makríl og kolmunna, en þar hefur ákvörðun okkar um síldina óneitanlega verið óheppileg.

Við þessar aðstæður, hv. þingmaður, er eðlilegt að spyrja hvort rétt sé að gera þennan samning. Svar mitt er tvímælalaust já því að við verðum að líta á stóru myndina. Samningurinn var gerður á heppilegum tíma þegar við stóðum frammi fyrir loðnubresti og tvísýnu í afkomu ferðaþjónustunnar. Samningurinn veitti okkur heimild til að veiða kolmunna og síld, auk makríls, í lögsögu Færeyja sem skapar meiri arð af veiðunum en ella og sem kemur að nokkru til móts við loðnubrestinn. Að sjálfsögðu verðum við að líta til mikilvægis þess að varðveita sögulega vináttu, traust og gagnkvæman stuðning þjóðanna en ekki skiptir minna máli að líta til þeirra fjölmörgu tækifæra til verðmætasköpunar sem samstarf þjóðanna býður upp á.

Við erum bundin rótgrónum böndum sjávarútvegsins. Ytri ógnir eru okkur skeinuhættari en tímabundinn ágreiningur. Áratugalangt samstarf þjóðanna í sjávarútvegi hefur án nokkurs vafa ýtt undir hagsæld beggja. Vernd og skynsamleg nýting sameiginlegra flökkustofna er og verður sameiginlegt hagsmunamál þjóðanna beggja og grundvallarforsenda fyrir áframhaldandi velsæld okkar.

Ég lít því á gerð þessa samnings sem lítinn en jafnframt mikilvægan þátt í að viðhalda sterkum vina- og hagsmunaböndum okkar og jafnframt enn eitt merki um að við getum náð samkomulagi um útistandandi ágreiningsefni, samkomulagi sem þjónar hagsmunum okkar beggja og eykur á ávinning hvors um sig.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.