150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Enn ræðum við í þingsal það flókna mál sem tengist Guðmundar- og Geirfinnsmáli og nú þetta flókna frumvarp sem er komið til 3. umr., frumvarp til laga um heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli 521/2017. Þetta er mál sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram og varð nokkur umræða um í þingsal þegar það kom hingað inn og virðist ætla að verða aftur. Það er miður af því að það er ótrúlega mikilvægt að okkur takist að ljúka þessu máli einhvern tímann í nokkurri sátt. Því miður er þetta frumvarp þannig úr garði gert að það vekur enn upp fleiri spurningar en svör. Það hefur engum breytingum tekið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd heldur er bara afgreitt eins og það kemur frá hæstv. forsætisráðherra. Nú þegar á að afgreiða það sem lög frá Alþingi sem þegar eiga að taka gildi en falla úr gildi eftir sex eða sjö mánuði veltir maður fyrir sér til hvers leikurinn sé gerður. Þetta frumvarp breytir engu um það að það á eftir að semja við hóp af fólki um mögulegar bætur og fjölda spurninga er enn ósvarað.

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls spurði ég hæstv. forsætisráðherra út í það sem stendur í frumvarpinu að eigi að vera réttur aðstandenda þeirra sem sátu inni en hafa verið sýknaðir. Því miður svaraði hæstv. forsætisráðherra ekki þeirri spurningu og mér er ekki kunnugt um að nokkurt svar hafi borist til hv. allsherjar- og menntamálanefndar hvað það varðar, þ.e. hvort hér sé verið að samþykkja sjálfstæðan rétt til barna og maka allra þeirra sem dæmdir voru og hafa nú verið sýknaðir. Erum við að tala um sjálfstæðan rétt þeirra vegna eigin miska? Þetta ætlar Alþingi Íslendinga, löggjafinn, að láta standa algerlega ósvarað. Hvaða fordæmi sköpum við með því? Ætlum við að láta því ósvarað hvort aðstandendur fólks sem hneppt er í gæsluvarðhald eða látið sitja í fangelsi og síðar sýknað eignist sjálfstæðan rétt til miskabóta vegna eigin miska? Það kann að vera að einhverjum hér inni þyki ég fullsmásmuguleg og smámunasöm í þessu en mér finnst þetta stórmál. Mér finnst stórmál að láta því ósvarað hvort allir aðstandendur þessa fólks eigi rétt á bótum og afgreiða þetta algerlega án þess að kostnaðarmeta eitt eða neitt, algerlega óháð því hvort þeir sem sýknaðir voru eru á lífi eða ekki. Löggjafinn verður að vanda sig og þetta verður ekkert aftur tekið.

Nú skal því alveg haldið til haga að ég vil réttláta málsmeðferð fyrir allt þetta fólk. Ég vil að réttlætið nái fram að ganga í þessu ótrúlega erfiða máli en ég á ofboðslega erfitt með það þegar löggjafinn tekur við svona frumvarpi með fjölda ósvaraðra spurninga og afgreiðir gagnrýnislaust. Mér finnst það ekki gott. Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi verið rætt neitt í nefndinni. Hvað ætlar þingheimur að gera við aðra aðstandendur annarra þeirra sem hafa fengið bætur frá íslenska ríkinu í kjölfar sýknudóms? Við erum að tala um fleiri einstaklinga sem ekkert koma nálægt þessu Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Hvernig ætlar íslenska ríkið að höndla þau mál? Það eru fleiri svona mál og við erum hérna í 3. umr. að fara að afgreiða þetta. Þá er eins gott að allir þeir sem hér sitja geti svarað því fólki sem hingað mætir svo og ætlar að fá bætur vegna eigin miska út af svona máli af því að það er klárlega einhver miski. Þetta er mjög alvarlegt.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í atkvæðagreiðslu í gær að hún vildi ekki taka pólitíska umræðu um þetta mál. Það má vel vera að hún vilji það ekki. Ég vil tala um þetta út frá mikilvægi þess að löggjafinn vandi sig. Þetta mál er svo langt fyrir ofan alla flokkapólitík að mínu mati. Mér finnst algerlega ábyrgðarlaust að láta eins og þetta snúist um í hvaða stjórnmálaflokki við erum. Þetta mál er búið að liggja eins og mara á þjóðinni í fjóra áratugi. Getum við ekki hafið okkur upp yfir að láta þetta snúast um í hvaða stjórnmálaflokki við erum og reynt frekar að vanda okkur aðeins? Hvaða samstöðu og niðurstöðu ætlar forsætisráðherra að ná í þessu flókna máli á næstu sjö mánuðum þangað til þessi lög falla úr gildi? Hvað heldur hún að muni gerast á þessum tíma og hvað gerist þegar lögin hafa fallið úr gildi? Hvað gerist þá? Ætlum við að framlengja þau eða ætlum við að fara að hugsa um hvernig við ætlum að gera þetta?

Staðan núna er sú að ríkislögmaður hefur skilað inn greinargerð fyrir dómi þar sem hann krefst sýknu af bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar. Þeirri kröfu hefur ekki verið breytt en það vita allir sem eitthvað vita að sá sem kemur fram með kröfu fyrir dómi getur breytt henni undir meðferð málsins fram að dómtöku, en þeirri kröfu hefur ekki verið breytt. Sýknukrafa ríkisins í þessu máli stendur enn óbreytt.

Ég get ekki horft fram hjá umsögn þess lögmanns sem hvað lengst hefur barist í þessu máli, ég held í nánast fjóra áratugi. Það er Ragnar Aðalsteinsson lögmaður sem skilaði inn umsögn í tíu liðum út af þessu máli. Hann talar einmitt um börn hinna sýknuðu sem eru á lífi, að þau hafi orðið fyrir óafturkræfum áföllum vegna þessarar handtöku og frelsissviptingar sakborninga og veltir fyrir sér þeirra sjálfstæðu bótakröfu, enda er því ekki svarað í frumvarpinu. Hann hnýtir í fjölmargt sem kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu, m.a. að niðurstaða Hæstaréttar frá 2017 um sýknu hafi byggst á kröfugerð ákæruvaldsins og megi skilja ummælin þannig að kröfugerðin hafi ein og sér ráðið niðurstöðunni. Ragnar Aðalsteinsson segir, með leyfi forseta:

„Á þetta er ekki unnt að fallast. Hæstiréttur féllst því aðeins á kröfugerð málsaðila eftir að hafa kannað forsendur úrskurðar endurupptökunefndar og komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðurinn væri annmarkalaus bæði að efni og formi til. Að öðrum kosti hefði ekki komið til sýknu. Því er rangt að segja að sýknukrafa ákæruvaldsins ein hafi ráðið niðurstöðu Hæstaréttar. Hæstiréttur tók sjálfstæða efnislega afstöðu til sakargiftanna í málinu með því að leggja blessun sína á úrskurð endurupptökunefndar.“

Það vekur athygli mína að svo virðist sem aðvörunarorð Ragnars Aðalsteinssonar rati ekki inn í nefndarálitið svo nokkru nemi. Svo virðist sem bara hafi verið stefnt að því að afgreiða þetta hratt og örugglega út úr nefndinni, vissulega taka inn einhverja gesti en ekkert að skoða þau álitaefni sem eru þarna uppi. Ríkislögmaður er áfram með málið á sínu borði. Ríkislögmaður á að sjá um að semja um bætur. Hann gerir það í umboði af því að hann er lögmaður ríkisins. Ef hæstv. forsætisráðherra vill hafa málið á sínu borði eins og hún hefur haft allan tímann getur hún verið þarna við borðið. Það er ekkert sem stoppar það. Hún er æðsti ráðamaður þjóðarinnar og ríkislögmaður starfar í þessu máli fyrir hana. Allt sem hann gerir gerir hann í umboði hæstv. forsætisráðherra og það að bera fram frumvarp sem einhverja nauðsyn til að hún geti tekið málið til sín er auðvitað ekki rétt vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er með málið hjá sér. Þetta frumvarp er ekki til bóta. Hvað eiga þingmenn að gera í þeirri stöðu að frumvarpið er komið á þennan stað, í 3. umr.? Er ekki rétt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta mál aftur inn til sín og vinni það betur? Er ekki rétt að nefndin skoði t.d. þetta, þótt ekki væri nema til að kanna hvort það sé sjálfstæður réttur aðstandenda til miskabóta vegna eigin miska? Þessu er ekki svarað.

Þetta er risastórt mál. Ég ræddi um þetta í 1. umr. Það var engin 2. umr. en nú erum við stödd í 3. umr. og ætlum að fara að samþykkja þetta gagnrýnislaust. Mér finnst það algerlega óboðlegt. Það er líka óboðlegt fyrir þetta fólk sem hefur fengið að þjást í 40 ár að við skulum ekki vanda okkur betur. Í greinargerðinni er eitthvað verið að velta fyrir sér fjárhæðum miskabóta og fordæmum hvað þær varðar og hvet ég þingmenn til að lesa einnig umsögn Ragnars Aðalsteinssonar þegar verið er að vísa í dómafordæmi sem standast ekki skoðun, vísa til sambærilegra atvika varðandi héraðsdóm í einhverjum málum sem ekki var áfrýjað, látið eins og að héraðsdómur sem ekki var áfrýjað sé eitthvert fordæmi í þessu máli. Einnig er vísað í hæstaréttardóm um sama sakarefni, þ.e. fyrir þá sem sátu í 105 daga gæsluvarðhaldi að ósekju árið 1976 út af sama sakarefni, og talað um hvaða tölu eigi að finna út miðað við þá einstaklinga. Rétt er að geta þess að þeir sem sátu saklausir í gæsluvarðhaldi sátu þó bara saklausir í gæsluvarðhaldi en ekki saklausir í fangelsi. Það er þó sambærilegt og hvort tveggja hræðilegt af því að frelsissvipting er alltaf hræðileg.

Að lokum, herra forseti, get ég ekki sleppt því að minnast á hlut Erlu Bolladóttur sem Alþingi Íslendinga ákveður enn einu sinni að sniðganga alveg. Það er ekkert minnst á hana í þessu frumvarpi og hefur heldur ekki verið minnst á hana í ræðum. Ég held að það sé kominn tími á að ríkisstjórnin skoði hennar mál til jafns við mál annarra og þarf ekki annað en að skoða sögu Erlu Bolladóttur til að sjá að hún var beitt mjög miklum órétti.