150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið síðara sinni. Ég hygg að við séum ágætlega sammála um þessa þætti. Þetta er eins og hv. þingmaður kom inn á mjög áhugavert með stærri tækin sérstaklega. Kannski er tækifæri til að ráðast á garðinn fyrst í almenningssamgöngum. Eins og ég kom að í andsvari við hæstv. ráðherra áðan, og hv. þingmaður ítrekaði líka, er hver þannig rafmagnsvagn eins og að skipta út 50 jarðefnaeldsneytisbifreiðum. Það eru 6.000–7.000 bifreiðar ef við tækjum allan strætóflotann og breyttum í rafmagn. Það eru fjórum sinnum fleiri en allar rafmagnsbifreiðar í landinu sem eru skráðar í dag, held ég, alla vega þær sem hafa verið seldar á undanförnum fimm árum eða svo. Það er því eftir verulega miklu að slægjast. Þarna held ég að sé óhætt að ganga fram af meiri metnaði þótt það kosti talsvert í upphafi því að við höfum bara svo mikinn ávinning að sækja og er líka gott fordæmi að sýna út í samfélagið allt.

Síðan þurfum við að einbeita okkur að þáttum eins og orkuskiptum í landflutningum og hvernig við getum leyst slík mál. Svo eru enn flóknari viðfangsefni eins og orkuskipti í togaraflotanum okkar. Það er ánægjulegt að sjá hvað sjávarútvegurinn hefur náð góðum árangri, annars vegar vegna kvótakerfisins og fækkun skipa en ekki síður vegna mikillar fjárfestingar í eyðsluminni flota en við áttum áður að venjast, nýrri skrúfutækni o.s.frv., en við þurfum að horfa til þess til lengri tíma litið hvernig við getum búið svo um hnúta að sjávarútvegurinn geti ráðist í raunveruleg orkuskipti en ekki bara samdrátt í losun. Þar eru fjölmörg áhugaverð tækifæri og mér fannst við vera að gera allt of lítið enn sem komið er í að sinna nauðsynlegum rannsóknum og undirbúningi að slíkum breytingum og megum ganga mun lengra í þeim efnum.