150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Hann nefndi í sínu síðara andsvari ef frumvarpið næði fram að ganga. Ég vona að við séum á sama stað, ég og hv. þingmaður, í því. Ég tel afar brýnt að þetta frumvarp nái fram að ganga, sérstaklega í ljósi þess að 90% þeirra sem starfa við greinina eru mjög áfram um að fyrirkomulagi því sem samið var um 2016 verði breytt. Og já, ég vona svo sannarlega að það geti orðið sæmileg sátt um þetta, til að mynda kom til sú bókun sem við gerðum eftir samkomulagið af þeirri ástæðu að við ætluðum að létta aðeins á þeirri pressu sem hafði m.a. valdið því að atkvæðagreiðslu um samninginn var frestað, þó svo að bændaforystan hefði samið um annað. Við virtum það ágætlega og ég vænti þess að það geti orðið til þess að búa til betri sátt um málið heldur en í stefndi.

Það eru inni í samkomulaginu sem við gerðum við bændur ýmis atriði sem lúta að því að hamla gegn samþjöppun. Ég nefni sem dæmi takmarkanir á hámarkseign á greiðslumarki, hámarksmagn sem boðið er á hverjum markaði o.s.frv. Það eru ýmsir þættir inni í samkomulaginu sem eiga að geta spornað gegn gríðarlega mikilli samþjöppun í þessu en eins og þingmenn þekkja hefur hún orðið mikil á síðustu árum og atvinnugreinin hefur í rauninni gengið í gegnum alveg ótrúlega mikil umskipti.