150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Það liggur þá alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins beittu sér ekki fyrir því að samkeppnishlutinn yrði tekinn upp. Það hefði verið ágætt að fá að vita að menn hefðu þó alla vega reynt að leggja sig fram um að láta almenn samkeppnislög, sem eru vissulega og fyrst og fremst í þágu neytenda, gilda um allan markaðinn. En við erum búin að fá á hreint að svo sé ekki. Mér finnst samningurinn fyrir margra hluta sakir áhugaverður, þessi viðbót, t.d. varðandi loftslagsmálin, þó að mér finnist það, þegar betur er rýnt í það, svolítið þunnur þrettrándi, það á að skoða og athuga og hugsanlega ná einhverjum árangri 2040. En engu að síður er ákveðinn vilji til staðar og ég fagna því.

Ég geri ráð fyrir því, hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef svo er ekki, af því að loftslagsmálin hafa verið nefnd, að umhverfisráðuneytið hafi komið að málum. Þá langar mig að fá að vita hvaða athugasemdir umhverfisráðuneytið setti fram í tengslum við endurskoðun á þessum samningi.