150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

desemberuppbót.

[15:23]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil vitna til þess aftur að núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram tillögur, m.a. að 10.000 kr. sérstakri uppbót. Ég veit að það er kannski ekki nóg en það er alla vega viðleitni í rétta átt og líka gagnvart því að það verði ekki til skerðinga og verði ekki tekinn af þessu skattur. Þetta er tillaga sem komin er frá meiri hlutanum hér á þingi þannig að þar erum við þó að stíga skref í átt til breytinga.

Síðan vil ég segja líka að við erum með í undirbúningi talsvert miklar kerfisbreytingar til að bregðast m.a. við skýrslu sem kom út á síðasta ári og unnin er af Kolbeini Stefánssyni er lýtur að fátækt barna. Þar erum við að undirbúa aðgerðir um kerfisbreytingar til að grípa þau börn sérstaklega. Það er óásættanlegt í samfélagi eins og okkar að fjölskyldur með börn þurfi að leita til frjálsra félagasamtaka fyrir jól og fyrir hátíðir. Ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni hvað það snertir. Kerfið sem við byggjum upp, öryggisnetið sem við byggjum upp, á að grípa þessi börn og fjölskyldur þeirra.