150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

skipun í stjórn Ríkisútvarpsins.

[15:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, fyrir að spyrja um fyrirkomulagið og út í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég vil fyrst taka fram að ég óskaði sem ráðherra eftir skýrslunni vegna þess að mér fannst mjög brýnt að við færum ofan í saumana á vissum málum sem ákveðnar deilur höfðu verið um, m.a. um að setja á laggirnar dótturfélag um samkeppnisrekstur. Ég fagna skýrslunni þar sem þar eru ýmsar mjög góðar ábendingar um hvernig megi gera hlutina betur. Stjórn RÚV hefur tilkynnt mér að hún muni setja á laggir dótturfélag eins fljótt og auðið er þar sem þar var ákveðin lagaleg óvissa að mati stjórnarinnar. Ríkisendurskoðun kom inn með sitt mat á því og færði mjög góð rök fyrir því hvernig hægt sé að aðskilja þennan rekstur enn frekar.

Varðandi fyrirspurn þingmannsins um skipan í stjórn RÚV, hvort þar ættu að vera breytingar á, hvort fjármála- og efnahagsráðherra ætti fremur að skipa í stjórnina, er það svo að annars staðar á Norðurlöndunum fer mennta- og menningarmálaráðuneyti með skipan í stjórn ríkisútvarps og tel ég að það séu faglegar forsendur fyrir því þar sem starfsemi RÚV gengur út á að varðveita menningu, tungumálið og annað slíkt. Því tel ég að skipan í stjórn RÚV eigi að vera undir mennta- og menningarmálaráðuneytinu.