150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[19:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni enn eitt málið frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra sem kemur ótilbúið inn í þingið allt of seint og gefur hv. velferðarnefnd því miður ekki tækifæri til að vinna fullnægjandi. Við ræddum það við 1. umr. hversu miður það er að málið komi svona seint og svo kom í ljós í umsagnarferli að fjölmargar athugasemdir voru gerðar, m.a. af Seðlabanka Íslands, sem meiri hluti nefndarinnar vildi ekki taka tillit til. Ég tel að þau vinnubrögð séu ekki til eftirbreytni þegar Alþingi lítur ekki við umsögnum frá svo mikilvægri stofnun.

Það er margt ágætt við hugmyndina en hún er því miður ófullbúin.