150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hlýt að spyrja líka um upphæðina, 400 milljónir. Ekki alls fyrir löngu felldi meiri hluti þingheims tillögu okkar Miðflokksmanna um að veittar yrðu 270 milljónir til að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerð. Hérna draga menn 400 milljónir upp úr pússi sínu. Er það rétt forgangsröðun, þegar velta þarf fyrir sér hverri krónu, að styrkja einkarekna fjölmiðla um 400 milljónir á ári ofan á þá rúmu 4 milljarða sem við greiðum til svokallaðs ríkisútvarps?

Þá er spurningin: Hvernig líst hæstv. ráðherra á tillögu okkar Miðflokksmanna um að almenningi verði gert kleift að velja þá fjölmiðla sem hann vill að útvarpsgjald fari til, að menn fái að velja með fótunum?