150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[01:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Enginn velkist í vafa um að staða sjálfstætt starfandi fjölmiðla á markaði er erfið. Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi þeirra á undanförnum árum þannig að heldur hefur gefið á bátinn frá því sem jafnvel var en baráttan hefur alltaf verið erfið. Hún hefur alltaf verið þung. Ég tala þar af nokkurri reynslu enda var ég yfirmaður auglýsingadeildar Stöðvar 2 þegar við fórum í loftið á sínum tíma, í samkeppni við ríkisrisann. Auðvitað komumst við ekki hjá því að ræða hlutverk hans þegar við förum yfir það hvernig við ætlum að styrkja stöðu einkarekinna miðla á markaðnum. Það er alveg útilokað að horfa á þetta í einhverju samhengi öðruvísi en að við skoðum þær aðstæður.

Sú breyting sem hefur átt sér stað í hinni fjölbreyttu flóru fjölmiðlunar í dag kallar eðlilega á einhvers konar endurskilgreiningu á hlutverki Ríkisútvarpsins. Auðvitað hafa allar aðstæður breyst það mikið að það hlutverk sem Ríkisútvarpið hefur gegnt í gegnum árin og áratugina hefur gjörbreyst. Eins og staðan er í dag hjá þessu fyrirtæki sem hefur úr svo miklu fjármagni að moða, hefur svo mikið forskot fram yfir aðra, gætir þess forskots víða. Ríkisútvarpið hefur til að mynda algjöra yfirburðastöðu þegar kemur að efnisöflun og framleiðslu efnis sem er einn hluti samkeppninnar. Þetta verða allir varir við. Þetta þekkjum við alþingismenn svo ágætlega og sjáum þegar við komum í höfuðstöðvar Ríkisútvarpsins og svo í höfuðstöðvar annarra miðla hvernig allt umhverfið ber þess merki að þarna er á ferðinni stofnun sem er gríðarlega fyrirferðarmikil og kannski miklu dýrari í rekstri en hún þarf að vera með nútímatækni. Í öllu þessu samhengi væri full ástæða til að endurskoða og skilgreina upp á nýtt þetta hlutverk.

Hér hefur til að mynda verið talað um menningarhlutverk. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, ég er alveg sammála því að það er mjög mikilvægt að því sé sinnt. Það er kannski ekkert óeðlilegt að ríkið stuðli að slíkri útgáfu, standi við bakið á slíkri fjölmiðlun, en er það þá menningarhlutverk að reka útvarpsstöð eins og Rás 2 þegar við erum komin með jafnvel tugi útvarpsstöðva í landinu og Rás 2 er bara eins og margar þeirra? Er þörf fyrir það?

Þetta eru spurningar sem við ættum að spyrja okkur vegna þess að svo mikið af skattfé borgaranna fer í rekstur þessa fyrirtækis að sú upphæð sem lögð er til grundvallar í því frumvarpi sem við erum að ræða er hjóm eitt miðað við þá stöðu. Væri því fjármagni betur dreift jafnvel að einhverju leyti yfir á þessar frjálsu stöðvar til að efla þær einmitt í að sinna líka þessu menningarhlutverki? Við hljótum að þurfa að spyrja okkur þessara spurninga á sama tíma og verið er að ræða um að styrkja verði umhverfi einkarekinna fjölmiðla. Öryggishlutverkið er gjörbreytt frá því sem áður var og hefur margsinnis verið komið inn á það í umræðunni. Þetta þekkjum við bara af dæmum og sögu síðustu ára og kannski nærtækast í óveðrinu um daginn. Við getum líka rifjað upp stórviðburði í náttúruhamförum eins og þegar Suðurlandsskjálftarnir riðu yfir á sínum tíma. Aðrir fjölmiðlar stóðu sig þá miklu betur í að sinna upplýsingahlutverkinu.

Í ljósi reynslunnar þurfum við einmitt að horfa til öryggishlutverksins á miklu víðari grunni. Hvernig ætlum við að tryggja að fólk hafi aðgang að fjölmiðlum þegar það upplifir náttúruhamfarir? Við getum algjörlega gengið út frá sem vísu að við eigum eftir að sjá miklu meira af þeim í framtíðinni og jafnvel miklu alvarlegri en þær sem við höfum séð í samtímanum. Hvernig ætlum við að tryggja að við getum komið upplýsingum til fólks? Yfir þetta þarf líka að fara og það þarf að ná til hinna fjölmiðlanna líka. Þá fjölmiðla þarf að samþætta inn í þetta öryggisnet þannig að það sé jafnvel samþætt á öllum stöðvum. Það þarf eflaust að greiða þeim fyrir það. Það er líka styrkur til að standa undir rekstri þeirra.

Ég geri ráð fyrir að við eigum eftir að sjá frá hæstv. menntamálaráðherra þær aðgerðir sem hún hyggst grípa til gagnvart rekstri RÚV vegna þess að ég lít svo á að það loforð hafi verið gefið við framlagningu þessa máls að við fengjum að sjá minnisblað um þær aðgerðir. Rekstur RÚV er órjúfanlegur hluti af málinu en ég hefði viljað fara miklu dýpra í það. Ég hefði viljað nota þetta tækifæri til að skoða það af miklu meiri alvöru, ekki endilega til að loka RÚV heldur endurskilgreina hlutverk RÚV. Ég held að við þurfum að gera það, en ekki til að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Það eru misjafnar skoðanir á því í mínum flokki. Ég hef verið þeim megin í því að ég tel að RÚV eigi að vera á auglýsingamarkaði, að RÚV sé það mikilvægur fjölmiðill að auglýsendur þurfi að geta nýtt hann til að koma skilaboðum til almennings. Hins vegar er mjög mikilvægt að á því verði miklar breytingar. Svo fyrirferðarmikið hefur RÚV verið á auglýsingamarkaði að það rekur eina stærstu auglýsingasölustofu landsins og sá rekstur kostar jafnvel hundruð milljóna á ári. RÚV hefur alla tíð frá því að frjálsir fjölmiðlar fóru af stað í ljósvakamiðlun stundað gríðarlega fyrirferðarmikla sölumennsku og hefur stundum allt að því beitt bolabrögðum á þeim markaði og nýtt yfirburðastöðu sína.

Ég nefndi dæmi áðan frá því í sumar þegar RÚV var með einkarétt á því að sýna frá stórri fótboltakeppni. Allir sem fylgjast með ljósvakamiðlum í dag, sjónvarpsstöðvum, þekkja að beinar útsendingar eru hvað verðmætastar í sölumennsku á sjónvarpsauglýsingum. RÚV beitti þeim bolabrögðum gagnvart viðskiptavinum sem vildu kaupa auglýsingatíma að skylda þá til að kaupa stærri pakka á öðrum tímum. Almennt er talað um það á þessum markaði að RÚV hafi þurrkað upp auglýsingamarkaðinn, þurrkað upp það sem hefði annars runnið til annarra miðla. Það er óásættanlegt að fyrirtækið skuli nýta yfirburðastöðu sína svona. Það er þetta og svo margt annað sem þarf að taka á. Ég geri ráð fyrir því að menntamálaráðherra muni sýna okkur tillögur um þetta eins og lofað hefur verið að fylgi þessu frumvarpi, tillögur um hvernig við bregðumst við yfirburðastöðu RÚV á markaði.

Tillögur okkar eru einfaldar. Markmiðið er ljóst. Við viljum stuðla að því að efla fjölmiðlun í landinu. Það er sameiginlegt markmið okkar en leiðirnar sem við viljum fara eru mismunandi. Í Sjálfstæðisflokknum höfum við helst rætt um að laga til í rekstrarumhverfi þessara miðla, gera það þannig að við lækkum opinberar álögur, myndum þannig hvata fyrir þessi fyrirtæki til að efla starfsemi sína en leggjum ekki á þau þungar byrðar í skattalegu tilliti til þess síðan að rétta þeim einhverja peninga í staðinn sem er algjörlega óvíst að muni duga.

Hér var talað um að stærðarhagkvæmnin réði. Í öllum tillögum sem hafa verið ræddar er gert ráð fyrir einhvers konar þaki, að einstaka fjölmiðill geti aldrei fengið meira en einhverja ákveðna upphæð. Þannig er tekið tillit til svokallaðrar stærðarhagkvæmni. Við viljum fara þessa leið. Við viljum draga úr fyrirferð RÚV á markaði með ýmsum ráðum. Hér mun aldrei skapast eðlilegt umhverfi nema sú leið verði farin. Ég tel reyndar að í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið á þessum markaði á undanförnum árum sé útilokað annað en að jafna stöðu þessara miðla, hvort sem eru útvarpsstöðvar, sjónvarpsstöðvar, prentmiðlar eða netmiðlar, til að þeir geti keppt á sama grunni og þeir fjölmiðlar sem flæða yfir okkur á internetinu.

Það er ekkert vit í því að íslensk fyrirtæki eyði milljónum á ári í að auglýsa til að mynda áfengi á fésbók til en megi ekki gera það annars staðar. Menn mega auglýsa á fésbókinni, borga ekki af því skatta og skyldur til íslenska ríkisins eins og aðrir en það er lokað fyrir hina fjölmiðlana sem eru þó í mikilli samkeppni einmitt við þessa miðla. Þetta er algjör tímaskekkja, alveg með sama hætti og var á sínum tíma með svo margt í samfélaginu. Það mátti hvorki flytja inn litasjónvörp né bjór. Það mátti ekki koma okkur inn í nútímann.

Ég held að það sé kannski það sem hv. þm. Brynjar Níelsson vitnaði til hér áðan, að menn væru allt of afturhaldssamir. Við verðum að horfast í augu við þann raunveruleika sem við okkur blasir. Við komumst ekkert áfram í þessu öðruvísi en að jafna samkeppnisstöðuna alla leið. Það verður bara plástur sem dugar í skamman tíma að ætla að dæla skattfé borgaranna í fjölmiðla. Hvað svo þegar það dugar ekki?

Lögum rekstrarumhverfið. Lögum samkeppnisstöðuna gagnvart þessum stóra markaðsráðandi aðila (Forseti hringir.) og opnum markaðinn þannig að fjölmiðlar keppi á jafnræðisgrundvelli við helstu samkeppnisaðila sína.