150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða óveðrið 9.–11. desember sl. og þetta var mannskaðaveður. Á sama tíma, bara á einni viku, sjáum við mannskaðaveður í Bandaríkjunum, mannskaða í Ástralíu vegna skógarelda og mannskaða á Nýja-Sjálandi vegna eldgoss. Ég er svolítið hugsi yfir þessu og ég veit að við megum þakka fyrir björgunarsveitirnar okkar og þá hugsun þeirra að vera ávallt viðbúnar hinu versta en vona það besta. En ég held að við verðum að spýta í lófana og vera tilbúin vegna þess að hvernig er staðan hjá okkur núna ef eftir eina viku skellur nákvæmlega sama veður á og einni viku seinna eða tíu dögum seinna kæmi enn þá verra veður? Værum við tilbúin fyrir það? Við verðum að hugsa svona. Ef maður fer að hugsa um þetta eftir á er það eiginlega óskiljanlegt, ef við horfum bara tíu ár aftur í tímann, hvernig sömu gróðureldar eru í Ameríku ár eftir ár, sömu gróðureldar í Ástralíu ár eftir ár. Sömu gróðureldar eru núna komnir á Norðurlöndunum. Það eru flóð í Bretlandi, aurflóð, við getum talið þetta upp. En hvað erum við að gera? Erum við með allt í nefnd? Við erum t.d. með varnir gegn gróðureldum í nefnd. Við erum bara að hugsa um það, hvernig við eigum að gera það og hvað við eigum að gera. Við skulum hætta nefndarstarfi, spýta í lófana, gera hlutina strax. Ég efast ekki um að hæstv. forsætisráðherra er sammála mér í því að við þurfum að gera eitthvað strax.