150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:34]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. „Er Akureyri Sódóma nútímans — sem drottinn var að refsa?“ Svona var fyrirsögn í blaðinu Alþýðumaðurinn 7. mars 1969. Tilefni þessarar fyrirsagnar var hið svokallaða Linduveður á Akureyri. Fárviðri, 12 vindstig, meira en 32 metrar á sekúndu er áætlaður vindstyrkur þann 5. mars 1969 í Linduveðrinu svokallaða. Dalvíkurlína var byggð þannig að hún átti að þola Linduveður en hún fór eins og svo margar aðrar línur á norðanverðu landinu.

Veðrið 10. desember 2019 var fárviðri og náttúruhamfarir. Við búum á Íslandi og svona getur gerst og mun gerast aftur. Það er alltaf einfalt að benda á einhvern og segja: Þú verður að gera betur næst og af hverju var þetta ekki klárt? Við getum öll gert betur, ekki bara opinberar stofnanir og sveitarfélög, líka hver og einn íbúi þessa lands. Tökumst á við verkefnið saman og undirbúum okkur fyrir næsta hvell þó að hann komi ekki fyrr en eftir 30 ár. Bætum fjarskipti, förum yfir flutningskerfi raforku, endurnýjum og styrkjum. Það breytir því þó ekki að varaafl þarf alltaf að vera til staðar. Nýjar og öflugar línur í lofti eða jörðu geta gefið eftir og varin tengivirki geta einnig gefið eftir.

Virðulegi forseti. Við búum í landi þar sem veður geta verið válynd og náttúruöfl óblíð. Lifum með náttúrunni því að hún verður ekki beisluð.