150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum búin að vera að ræða núna síðasta klukkutímann um óveðrið 9.–11. desember og hvernig við getum lært af því. Ég held að við verðum bara að viðurkenna að við vorum með buxurnar á hælunum. Við þurfum að hysja þær upp um okkur, við vorum allt of værukær, við höfum sofið á verðinum. Ef við ætlum ekki að viðurkenna það erum við enn í afneitun. Við erum með heila kynslóð af ungu fólki sem þekkir ekki veðrabrigði eins og við eldra fólkið höfum þekkt áður fyrr. Þetta óveður sem gekk yfir landið núna kom mér ekki á óvart. Ég hef upplifað svipað veður og jafnvel verra, bæði sem lögreglumaður, sjómaður og í sveit úti á landi. Að bregðast þannig við að vera hissa á því að þetta geti skeð og treysta t.d. á rafmagnið — við treystum því að rafmagnið haldi. Þegar verið er að tengja þriggja fasa rafmagn á bóndabýli með 100 beljur þar sem er fullkomið fjós og eingöngu raftengt, þá er sagt: Nei, nei, þú þarft enga varaaflstöð, þetta virkar algjörlega. Þetta dettur í mesta lagi út í tvo, þrjá tíma. Það datt út í tvo, þrjá sólarhringa. Við erum búin að ganga frá tvöföldu kerfi og enginn pælir í því að það sé einhver hætta á því að eitthvert sjúkrahús verði rafmagnslaust. Nei, nei, sjúkrahús, hvernig dettur ykkur það í hug? Það bara gleymdist að það var búið að taka varaaflstöðina á Hvammstanga. Hún var eitthvað fyrir. Það datt engum í hug að setja upp aðra. Svona höfum við flotið sofandi að feigðarósi.

Eins og ég sagði í andsvari áðan þá lærum við ekki af reynslunni. Við sjáum úti um allan heim eldgos, óveður, vatns- og aurflóð, skógarelda, sinuelda. Ég er mest hræddur um að við bíðum eftir að þetta gerist hér og skammtímaminnið verði þannig að eitthvað kemur upp á eftir þrjár vikur, fjórar vikur, mánuð og við gleymum þessu. Enn verða málin í nefnd. Enn verðum við ekkert að gera.

Það sem við ættum eiginlega helst að gera núna er að virkja betur björgunarsveitirnar okkar og fá þær til að skipuleggja hlutina betur. Þær þekkja þetta, alveg frá A til Ö. Það eigum við að gera. Svo segjum við alltaf: Það eru flestallir komnir með farsíma. En þeir detta út, þeir duttu út. Það er ekki alltaf hægt að nota þá. Svo er maður kallaður gamaldags og eitthvað skrýtinn fyrir að vera með heimasímalínu. Af hverju ertu ekki löngu búinn að losa þig við þetta? Það hvarflar ekki að mér að losa mig við það af því að ég þekki af eigin raun að þetta virkar.

Ég man að á sínum tíma heyrði maður alltaf um þetta Tetra- kerfi að það væri alveg pottþétt, skothelt. Var það það? Nei, það datt líka út. Hvað segir það okkur? Hvað segir þetta okkur um það hvað við þurfum að gera? Það segir okkur að við þurfum að endurskoða þetta allt og við þurfum að gera það strax. Við þurfum engar nefndir, við eigum að hætta þessu og setjast niður og byrja vegna þess að ég er rosalega hræddur um að við eigum eftir að lenda í slæmum aðstæðum. Ég ræddi bara í fyrra um hættuna á skógareldum í Skorradal. Það var þurrt í fyrra og við vorum heppin. Við eigum að læra af öllum þeim sem eru í kringum okkur hvernig þeir eiga við þetta og við eigum að vera á undan. Við eigum að fara í það strax að ganga frá því þannig að flóttaleiðir og annað sé pottþétt. Annað sem við þurfum líka að skoða eru flóttaleiðir út úr höfuðborginni. Hvað skeður ef það verður hamfaragos hérna einhvers staðar? Hvernig ætti fólk á Seltjarnarnesi að komast í burtu ef það þyrfti að rýma þar allt einn, tveir og þrír? Vonlaust. Við erum ekkert að hugsa svona. Sundabraut — hún kemur bara einhvern tímann. Ofanbyggðarvegur — það kemur bara seinna, það er aukaatriði. Allir með strætó. Við ætlum ekki að flýja með strætó ef eitthvað kemur upp á.

Við verðum að hugsa út fyrir kassann. Við verðum nú sem aldrei fyrr að ganga þannig um hlutina að við séum með allt uppi á borði og förum að hugsa fram í tímann og það strax.