150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Guðrúnar Ögmundsdóttur.

[16:00]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Er skammt var liðið af nýju ári bárust þær fregnir að á gamlaársdag, 31. desember 2019, hefði Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, andast á líknardeild Landspítalans, 69 ára að aldri.

Guðrún Ögmundsdóttir var fædd í Reykjavík 19. október 1950. Kjörforeldrar hennar frá fæðingu voru Ögmundur Jónsson, yfirverkstjóri hjá Vita- og hafnamálastofnun, og Jóhanna J. Guðjónsdóttir húsmóðir. Móðir Guðrúnar var Hulda Valdimarsdóttir.

Guðrún lauk BA-námi í félagsfræði og félagsráðgjöf frá Háskólanum í Hróarskeldu árið 1983 og meistaranámi í fjölmiðlafræði frá sama skóla árið 1985. Á námsárunum í Danmörku lét Guðrún til sín taka í félagsstarfi Íslendinga og var í stjórn Námsmannafélagsins í Kaupmannahöfn og síðar í stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis.

Guðrún gegndi ýmsum störfum, bæði áður en hún hóf háskólanám og eftir að hún kom heim frá námi. Hún var m.a. yfirfélagsráðgjafi á kvennadeild Landspítalans og stundakennari við læknadeild og félagsvísindadeild Háskóla Íslands um tíma.

Guðrún var lengi virk í stjórnmálum og var kjörin varaborgarfulltrúi Kvennalistans í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1990 og var aðalfulltrúi frá 1992. Árin 1994–1998 átti Guðrún sæti í borgarstjórn Reykjavíkur sem borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og var varaforseti borgarstjórnar og formaður félagsmálaráðs. Jafnframt gegndi hún ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Reykjavíkurborgar. Árið 2018 var Guðrún að nýju kjörin sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Við alþingiskosningarnar 1999 náði Guðrún Ögmundsdóttir kjöri sem alþingismaður Reykvíkinga fyrir Samfylkinguna og sat á þingi til ársins 2007. Á Alþingi átti hún sæti í félagsmálanefnd, allsherjarnefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd og tók þátt í norrænu starfi á vegum þingsins. Guðrún Ögmundsdóttir sat á tíu löggjafarþingum.

Guðrún var alla tíð ötul baráttukona fyrir kvenfrelsi og kvenréttindum og tók m.a. virkan þátt í starfi Rauðsokkuhreyfingarinnar. Þá beitti hún sér af krafti fyrir réttindum minnihlutahópa, ekki síst réttindum samkynhneigðra og hinsegin fólks. Var hún 1. flutningsmaður frumvarps um heimild presta til að staðfesta samvist, frumvarps sem að vísu náði ekki fram að ganga í þeirri atlögu en ákvæði þess voru síðar lögfest og þykja sjálfsögð mannréttindi. Hún kom víða við á ferli sínum, einkum þar sem bæta þurfti rétt eða stöðu svokallaðra jaðarhópa. Á síðasta ári var Guðrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu mannúðar og jafnréttisbaráttu hinsegin fólks.

Eftir að Guðrún lauk þingsetu starfaði hún sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu en árið 2010 var hún ráðin til dómsmálaráðuneytis sem tengiliður ríkisins og þeirra einstaklinga sem sætt höfðu harðræði á vistheimilum hins opinbera sem börn og unglingar. Í því starfi nýttist þekking hennar vel, sem og brennandi hugsjón fyrir að rétta hlut þeirra sem minna mega sín. Vart hefði fundist betri manneskja til að sinna þessu vandasama verkefni og ekki að ástæðulausu að leitað var með það til Guðrúnar Ögmundsdóttur.

Guðrún Ögmundsdóttir var glaðsinna og frjálsleg í fasi en jafnframt baráttukona með ríka réttlætiskennd sem stóð fast á sínu þegar á þurfti að halda. Hún var bæði hispurslaus og hreinskiptin og var vinamörg og vinsæl, jafnt meðal pólitískra samherja og mótherja. Það var eins og birti yfir umhverfinu þegar djúp en eilítið hrjúf rödd Guðrúnar Ögmundsdóttur hljómaði, jafnvel þótt það væri aðeins gegnum útvarp, svo ekki sé talað um hve gaman var að hitta hana í eigin persónu.

Ég bið þingheim að minnast Guðrúnar Ögmundsdóttur, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]