150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

flóðavarnir á landi.

58. mál
[13:45]
Horfa

Flm. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum báðir þingmenn nefnt Kötlugarðinn í framhjáhlaupi sem er eitt af þessum verkefnum sem sennilega myndu gleypa rúmlega þessa fjárveitingu sem er árlega. Það þarf auðvitað að skoða þetta allt í samhengi og það sem kannski snýr að okkur — við getum líka farið að tala um sjávarvarnir, við sáum hvað flóðbylgjan gerði á bæði, Flateyri annars vegar og Suðureyri hins vegar. Það eru víða götóttar sjóvarnir eða of lágar í landinu o.s.frv. Ég legg á það áherslu, og gerði það reyndar í gær í dagskrárliðnum Störfum þingsins, að ræða um hamfarasjóð sem hefur verið til umræðu og í bígerð, sjóður sem á að sameina aðra sjóði og taka inn þá ýmiss konar framkvæmdir. Það gætu verið nákvæmlega þessar flóðavarnir á landi, gætu verið hækkaðir sjóvarnargarðar og nýir sjóvarnargarðar, það sem eftir er að gera í snjóflóðavörnum o.s.frv. Þarna þarf líka að stunda rannsóknir og annað og það hlýtur að vera ásættanlegt og í raun snjallt að koma þessu undir einn og sama sjóðinn, tryggja honum fjármagn. Það er jú gert í ofanflóðasjóði með ákveðnu gjaldi. Það væri hægt að gera það fyrir þennan sjóð með því að breyta lögum og öðru slíku. Ég hvet hæstv. ráðherra, þeir eru fleiri en einn sem um þessi mál véla, að skoða þessa endurskipulagningu af fullum þunga.