150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

vextir á endurgreiðslur frá Tryggingastofnun.

[13:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Flestum er orðið ljóst að dómur féll í máli eldri borgara gegn íslenska ríkinu þann 31. maí á síðasta ári þar sem ríkinu var gert að greiða samkvæmt dómsorði skerðingar sem höfðu verið ólögmætar í janúar og febrúar 2017. Málið tapaðist fyrir héraði en vannst í Landsrétti á grundvallarreglum réttarfars sem segir að með íþyngjandi afturvirkum hætti séu réttindi borgaranna ekki skert þannig að auðvitað leit þetta ágætlega út.

Þetta er svokallað prófmál, virðulegi forseti, og það vekur athygli og hefur gert það úti um allt að í rauninni hefur aðeins aðili máls fengið dráttarvexti samkvæmt dómsorði. Allir aðrir plús aðilinn hafa fengið almenna vexti. Samkvæmt mínum athugunum er það ákvörðun ríkislögmanns burt séð frá áður gefnum fordæmum, samanber hæstaréttardóm nr. 549/2002, svokölluðum öryrkjadómi II, sem var dálítið mikið til hliðsjónar í þessu máli því að hann hefur sama brag. Samkvæmt þeim dómi sem var líka prófmál var ekki heykst á því að greiða dráttarvexti eins og á að gera. Í þessu tilviki virðist sem þeim aðilum sem eiga rétt samkvæmt dómsorði sé mismunað gróflega.

Því spyr ég hæstv. félags- og barnamálaráðherra hvort hann hafi komið einhvers staðar að þessari ákvarðanatöku. Ef svo er, á hverju byggir hann það að mismuna einstaklingum svona gróflega samkvæmt dómsorði, að mínu mati? Ef ekki, hvað hyggst ráðherra gera í stöðunni, ef eitthvað? (Forseti hringir.) — Bjarni, hættu að hjálpa honum.