150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[15:50]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, Vilhjálmi Árnasyni, fyrir þessa umræðu. Jafnrétti til náms óháð búsetu er mjög mikilvæg stefna. Hvernig tryggjum við að því markmiði sé náð? Það þarf sérstaklega að huga að þeim sem þurfa að fara um langan veg til að sækja sér menntun. Jöfnunarstyrkur LÍN er ágætur til síns brúks en þar er ekki um háa upphæð að ræða. Kostnaður þeirra nemenda sem eiga ekki ættingja til að búa hjá er verulegur, hvort sem hann felst í leigu eða heimavistarkostnaði. Sá kostnaður bætist ofan á annan kostnað sem er umtalsverður, t.d. í námsgagnakaupum. Í þessu samhengi þarf líka að tryggja fjölbreytni í námi um allt land og gefa litlum framhaldsskólum svigrúm til þess að vera með fjölbreytt námsframboð þó að nemendur séu fáir. Litlir framhaldsskólar eru mjög háðir sveiflum í búsetufjölda og viðkvæmir fyrir slíkum sveiflum. Oft getur verið erfitt að ná viðunandi fjölda nemenda í ákveðið nám sem leiðir til þess að nám er slegið af. Ef þessum skólum væri leyft að fara af stað með nám þó að nemendafjöldi næði ekki lágmarksviðmiði myndi það auka fjölbreytni í námi og tryggja nemendum frekari menntun í heimabyggð. Því miður er það yfirleitt svo að verk- og starfsnámi blæðir fyrir fámennið. Í sífelldu tali allra menntamálaráðherra síðustu áratuga er minnst á mikilvægi starfs og verknáms þannig að þetta ætti að vera borðleggjandi.

Að lokum vil ég minnast á kynjajafnrétti þegar jafnrétti til náms óháð búsetu er rætt. Brýnt er að báðum kynjum sé tryggt fjölbreytt námsframboð. Því miður er aðsókn í starfs- og verknám enn mjög kynjuð og það er mikilvægt að huga að því að slíkt nám sé í boði sem hentar báðum kynjum.