150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[15:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir byrja á að þakka málshefjanda fyrir þetta mál og ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni sem er mjög mikilvæg. Mér heyrist á þeim sem hafa tekið til máls að við séum giska sammála um að hér sé um brýnt mál að ræða og mikilvægt. Við þurfum að huga að því að veita þeim sem þurfa að sækja nám jafnan rétt til náms og jöfn tækifæri til þess og líka nauðsynlegt valfrelsi. Nútíminn færir okkur án nokkurs vafa margvísleg tækifæri sem við erum að sjálfsögðu að nýta og getum nýtt enn betur, eins og margir ræðumenn hafa komið inn á.

Einnig má nefna að það skiptir gríðarlegu máli fyrir byggðirnar að ungt fólk geti menntað sig og haldist heima og lagt sitt til samfélagsins. Það má nefna nýtt dæmi eins og Lýðskólann á Flateyri sem hefur sýnt og sannað að hann gegnir mikilvægu hlutverki. Þar eru fyrrum nemendur þegar farnir að setjast að. Aðkomufólk kemur í samfélagið og styrkir það. Nefna má t.d. hve mikil áhrif það hefur haft að Háskólinn á Akureyri tók upp fjarnám í hjúkrunarfræði. Það hefur gjörbreytt stöðunni víða úti á landi og má nefna að uppistaða hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsinu á Ísafirði eru einmitt hjúkrunarfræðingar sem hófu nám sitt með því að stunda fjarnám frá Háskólanum á Akureyri.

Ég held að tækifærin séu gríðarlega mörg. (Forseti hringir.) Við þurfum að nota tæknina. Við þurfum að gera þessa hluti þannig úr garði (Forseti hringir.) að allir geti stundað nám við sitt hæfi.