150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:04]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Jafnrétti til náms er grundvallarmál eins og flestir ræðumenn í þessari umræðu hafa komið inn á. Það er stöðug áskorun sem líta þarf á út frá tækifærum einstaklinga, byggðarlaga og landshluta. Alla vega hindranir geta haft áhrif á aðstæður til náms og vaxtar. Framhaldsskóli í tónlist á höfuðborgarsvæðinu er t.d. frábær en án heimavistar er nemendum fjarri fjölskyldum sínum gert býsna erfitt fyrir. Það er mikilvægt að þar sé verið að vinna að úrbótum. Samfélög á landsbyggðinni taka vel á móti flóttamönnum en heimili í byggðarlagi þar sem ekki er rekinn framhaldsskóli getur orðið hindrun ef nemendur fá ekki jöfnunarstyrk vegna búsetu. Þar er líka unnið að úrbótum. Fjölskyldur í dreifbýlinu hafa líka rekist á hindranir þegar börn ljúka grunnskóla fyrir 16 ára aldur, svo sem vegna höfnunar á lækkun tekjuskattsstofns vegna framhaldsnáms fjarri heimabyggð af því að kennitala barnsins sýnir ekki 16 ára aldur.

Fjar- og dreifnám getur mætt mörgum áskorunum en tryggja þarf að það þjóni þeim samfélögum sem þurfa á fjarnámi að halda, fólki sem býr dreift um landið og smærri skólum. Það er svo aukaafurð að fjarnám hentar fjölda fólks við ólíkar aðstæður um allt land. Fjarnám þarf að styrkja smærri skóla til að sækja fagþekkingu svo að þeir geti boðið öflugum kennurum starf í sínu fagi og skólakerfinu aðgang að þekkingu. Reiknilíkön verða að meta það og það er ekki eðlilegt að það séu fyrst og fremst stærstu framhaldsskólarnir eða símenntunarstöðvarnar sem geti í krafti stærðarinnar þróað fjarnám. Þvert á móti ætti að vera hvati fyrir minni skóla til þess eins og er nú í Fjarmenntaskólanum. Háskólar og framhaldsskólar mega samt ekki láta undir höfuð leggjast að byggja upp skólasamfélag sem dregur að fólk sem á þess kost að stunda staðnám.