150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:11]
Horfa

Eydís Blöndal (Vg):

Kæri forseti. Ég vil nefna tvö atriði sem mér finnst m.a. mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um menntun og jafnrétti einstaklinga til að sækja sér hana óháð búsetu. Ég tel tæknivæðingu og framþróun í formi kennslu vera af hinu góða, hvort sem það er í formi fjarnáms eða annars konar þjónustu til að koma til móts við fólk sem ekki getur sýnt viðveru í námi, hvort sem það er vegna búsetu eða annarra ástæðna, veikinda, fötlunar, fjárhagslegrar stöðu eða hvað eina sem kann að búa að baki. Fjarnám er oft góð lausn og jafnvel skemmtileg nýjung og nálgun sem færir okkur nær framtíðinni. Ég tel hins vegar mikilvægt að því sé haldið til haga að viðvera í menntun kann að vera mikilvæg forsenda þess að hægt sé að stunda námið aktíft þar sem nálægð og samskipti spila stórt hlutverk. Þetta þarf alltaf að hafa í huga þegar talað er um fjarnám, hvernig framkvæmdin verður.

Ég vil einnig bæta því við að mikilvægt er að huga að öllum samfélagshópum í þessari umræðu og vil ég sérstaklega í dag nefna innflytjendur, flóttafólk og hælisleitendur. Við verðum að tryggja fólki sem kemur hingað erlendis frá og afkomendum þeirra góðan aðgang að menntun. Ég tek undir orð hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur um að mikilvægt sé að þessi hópur njóti sömu réttinda í skólakerfinu og annað fólk hér á landi. Þessum hópi gæti eftir atvikum reynst erfiðara að fóta sig á fasteigna- á leigumarkaði, átta sig á menningu og hefðum og komast yfir hjalla sem geta myndast vegna tungumálaörðugleika. Stuðningur samfélagsins er lykilatriði, t.d. að fólk geti sótt sér tungumálakennslu og eigi sama aðgang að opinberum stuðningskerfum.