150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:42]
Horfa

Flm. (Ásgerður K. Gylfadóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þess vegna held ég að umræðan hér og nú sé alveg ágæt. (Gripið fram í.) Það er nefnilega svo margt sem er ekki alltaf í umræðunni. Það að koma inn á þing og sjá hvernig það virkar í raun er mjög lærdómsríkt. Í ræðu sinni kom þingmaðurinn inn á það hvort þetta geti verið fjölskylduvænt starf fyrir landsbyggðarþingmenn. Þegar ég kem sem landsbyggðarþingmaður hingað inn spyr ég: Hvernig getur þetta verið fjölskylduvænt starf fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins? Það eru ákveðin forréttindi að ég þurfi ekki að vera heima, setja í vél og skutlast með krakkana og annað. Ég er hér þegar ég er að vinna hérna, en það getur verið ansi snúið fyrir fólk sem þarf að sinna öllum daglegum störfum meðfram því að sinna þingmennskunni, vera í samtali við kjósendur. Í þessari þingsályktunartillögu er ekki verið að boða neinar byltingar heldur að fá þetta samtal, skoða hvað við getum gert til að gera betur. Það hefur sýnt sig að þingflokkarnir hafa ekki alveg getað strammað sig af í ýmissi umræðu og stundum er það eðlilegt af því að umræðan er þess eðlis en eins og hv. þingmaður kom inn má líka spyrja: Er eftirsóknarvert að vera sem oftast í pontu og eiga sem flestar mínútur? Ég velti því fyrir mér.