150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þar sem fram kemur kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls þannig að allt prentað íslenskt mál verði aðgengilegt til lestrar á nettengdum búnaði. Þessi skýrsla á rætur að rekja til þingsályktunar sem var samþykkt hér á þingi 6. júní 2018. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar áðan og skýrsluna sjálfa.

Eins og skýrslan ber með sér er hér um að ræða umfangsmikið verkefni því undir eru öll íslensk bókmenntaverk. Það telur, eins og kemur fram í skýrslunni, rúmlega 88.000 rit frá 1850–2015 eða síðustu 165 árin og heildarfjöldi blaðsíðna er áætlaður 9,3 milljónir. Til að setja umfangið í skiljanlegt samhengi, herra forseti, þá telst mér til að það hafi verið skrifað og útgefið nálega eitt og hálft rit á hverjum degi yfir öll þessi 165 ár, eitt og hálft rit á dag. Ef ég leitast áfram við að setja þetta í samhengi þá eru útgefnar 154 blaðsíður á hverjum einasta degi yfir þetta sama tímabil, 154 blaðsíður. Að þjóðin sé, herra forseti, kennd við bókmenntir er í ljósi þessa alls ekki fjarstæðukennt.

Áður en lengra er haldið vil ég lýsa yfir ánægju minni með þetta verkefni í heild sinni og bind vonir við að það fái skjótan framgang. Verkefnið er mikilvægt í þeirri viðleitni okkar að vernda íslenska tungu og ekki síður í að vernda menningararf okkar sem þjóðar. Það verður æ mikilvægara eftir því sem fjölþjóðleg áhrif aukast í samfélaginu og reyndar má segja að sú sé raunin um heim allan og einkenni okkar sem þjóðar að sæta margvíslegum áhrifum sem engin leið er fyrir okkur að sjá fyrir hvernig verða eða hvaða afleiðingar muni hafa ef til langs tíma er litið. Hér er um málefni að ræða sem snertir okkur sem þjóð sem er mikið í mun að varðveita þann stórkostlega menningararf sem forfeður okkar hafa skilið eftir sig og finnst ekki síst í skáldverkum, ljóðum og alls kyns rituðum verkum.

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að notast verði við þrjár myndavélar á tveimur vinnslustöðvum, annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Akureyri. Ég vil í þessu sambandi, herra forseti, benda á að hér er um verkefni að ræða sem gæti hentað vel til að efla atvinnu úti á landi og ég get ekki leynt því að hér hefði ég viljað sjá að meira af þessu verkefni yrði deilt út á land en gert er ráð fyrir í skýrslu hæstv. ráðherra. Í skýrslunni kemur fram að áætlað sé að verkefnið taki sex ár með því fororði að samningar takist við höfundaréttarhafa. Ef þetta á að taka sex ár, þá þarf að mynda og skanna 40 ritverk á hverjum einasta degi á þessum sex árum þannig að þetta er gífurlega umfangsmikið verkefni, herra forseti. Kostnaður er áætlaður 687 milljónir. Í því sambandi er áhugavert að heyra hversu mikill hluti þessara rita, 88.000 rita, er háður höfundarétti. (Forseti hringir.) Ég sé að í Noregi er gert ráð fyrir að það séu 70% en það væri áhugavert að heyra hvort þetta hafi verið rannsakað hér.