150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

skipan nefndar til að meta stöðu og gera tillögur um framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

264. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem þessi tillaga gengur út á, að draga annars vegar fram hagsmunina í gegnum tvíhliða samninga, sem að mínu mati mun ekki veita Íslandi það skjól sem þarf, við munum bara verða undirsátar Breta og Bandaríkjamanna, eða fara í fjölþjóðlegt samstarf og fjölþjóðlegt skjól. Ég var að reyna að draga það fram að hvert það skref sem við Íslendingar höfum stigið og verið fullir þátttakendur í með sæti við borðið hefur gagnast okkur. Það voru hér úrtölumenn sem börðu þetta hús 1949 sem vildu ekki að Ísland gengi í NATO. Við vorum sannfærð um að það var rétt skref. Það var rétt skref, þrátt fyrir að við værum herlaus þjóð, þrátt fyrir að við værum smáþjóð, að vera með sæti við borðið, að það þýddi eitthvað að vera með sæti við borðið. Það sama gilti með EFTA og það sama gilti í raun með það að vera síðan aðili með EFTA-þjóðunum, fyrir utan Sviss, að Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig að: Já, sagan sýnir, þessi hagvöxtur og þessi velsæld og að Ísland skipi sér í sveit með forysturíkjum þegar kemur að ýmsum þáttum, að alþjóðlegt og fjölþjóðlegt samstarf hefur skilað okkur betra samfélagi.

En við erum á krossgötum og það er það sem ég er að draga fram. Þessi ríkisstjórn, og væntanlega Miðflokkurinn ekki heldur, vill alls ekki snerta á þessu máli. Það má ekki ræða þau. Það er ekkert frumkvæði í því að kortleggja hvaða leið við eigum að fara. Við í Viðreisn teljum að rétt sé að klára aðildarviðræðurnar og verða fullir þátttakendur. Það er ekki bara efnahagslega rétt, það er ekki bara menningarlega rétt. Eigum við að tala um mannréttindi? Eigum við að tala um stóru myndina, um frelsið sem felst í því að vera lítið ríki sem er betur tryggt í glímunni við stóru risana, hvort sem það eru stærri ríki eða stór fjölþjóðleg fyrirtæki? Já, þannig að að öllu óbreyttu, miðað við allt og allt, tel ég rétt að við klárum aðildarviðræðurnar og leyfum þjóðinni að kjósa um Evrópusambandið. Það er stefna Viðreisnar að ganga í Evrópusambandið ef það skyldi koma Miðflokknum á óvart.

Þetta er náttúrlega það dásamlega við þetta, virðulegur forseti, að við ræðum allt of lítið um utanríkismál, um þessi prinsippmál. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að við eigum vonandi bráðum samtal um þetta mál hér. Frumkvæðið verður greinilega að koma frá okkur í Viðreisn.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir hv. þingmenn á tímamörk.)