150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

267. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa tillögu enda er hún til þess að gera einföld og hefur verið flutt hér áður. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Við vinnuna verði leitað eftir samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina. Heimilt verði að skipta úttektinni í áfanga en henni skuli að fullu lokið fyrir árslok 2022.“

Tillagan var flutt áður á 149. löggjafarþingi og er nú lögð fram að nýju óbreytt. Rétt er að geta þess að þegar er yfirstandandi úttekt sem þessi af hálfu atvinnuvegaráðuneytisins hvað varðar starfsumhverfi ferðaþjónustu og byggingariðnaðar, ef ég man rétt, og er mjög jákvætt að sjá stjórnvöld stíga þessi skref. En hér er lagt til að gengið verði lengra og allt regluverkið endurskoðað með þessi markmið að leiðarljósi. Það má benda á fjölda ríkja sem hafa gert þetta. Ástralir þykja hvað fremstir á þessu sviði, hafa markvisst undanfarna tvo áratugi hið minnsta gert reglulega úttekt á regluverki sínu til þess einmitt að ryðja samkeppnishindrunum úr vegi og telja sig geta rakið a.m.k. 0,5–1% hagvaxtarauka á ári hverju á þessu tímabili til þeirra aðgerða einna og sér, þ.e. að hafa aukið samkeppni á markaði heima fyrir. Hér á landi er því miður oft eins og samkeppni sé litin hornauga. Við erum með sérstakar undanþágur frá samkeppnislögum þegar kemur t.d. að landbúnaðarvörum. Oft er deilt mjög á samkeppnisumhverfi og vissulega er það svo að við erum lítill markaður og með einkenni fákeppni á mörgum vöru- og þjónustumörkuðum hér á landi. En það er samt svo, og kemur ágætlega fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu, að grundvallarmunur er á verðlagsþróun þeirra vara sem eru í virkri samkeppni hér á landi og þeirra vara sem búa við einokun eða hreina undanþágu frá samkeppni. Það kemur m.a. ágætlega fram á mynd 3 í greinargerðinni, sem sýnir verðbreytingar nokkurra vöruflokka frá 1997 yfir mjög langt tímabil, meðalhækkun þessara vara á ári. Þar kemur m.a. fram að föt og skór sem eru innflutt vara í óheftri samkeppni og símaþjónusta, sem reyndar var losuð úr samkeppnishömlum á þessu tímabili, hafa hækkað langminnst á þessu viðmiðunartímabili, að jafnaði um eða innan við 1% á ári á sama tíma og þjónustuflokkar eins og t.d. póstur eða póstþjónusta, sem lengst af þessu tímabili hefur verið háð einokun hins opinbera eða einkarétti, og akstur leigubifreiða hafa hækkað umtalsvert meira eða á bilinu 6–7% að jafnaði á ári og uppsöfnuð hækkun yfir þetta langa viðmiðunartímabil, liðlega 20 ára tímabil, er þá t.d. í tilfelli póstþjónustu, og eru þá ekki síðustu hækkanir meðtaldar, rúmlega 300% hækkun á röskum tveimur áratugum á sama tíma og símaþjónusta hefur hækkað óverulega yfir þetta heildartímabil. Það sýnir sig að það á ekkert síður við hér á landi en annars staðar að samkeppni skilar árangri, skilar ávinningi fyrir neytendur sem er auðvitað það sem á endanum skiptir langmestu máli. Ég held að við eigum fjölmörg tækifæri til að efla hér samkeppnismarkaði og ryðja óþarfa samkeppnishindrunum úr vegi. Oft og tíðum er verið að leggja stein í götu nýrra fyrirtækja með óþarfa regluverki og gera það óþarflega flókið að stofna eða hefja rekstur á viðkomandi mörkuðum.

Hér hefur verið talað um raforkumarkaðinn. Í langri umræðu síðasta vor var m.a. bent á að samkeppnisumhverfi þessa markaðar væri enn fjarri því fullkomið og mætti ýmislegt gera til að bæta þar úr. Þess vegna held ég að tillagan myndi skila miklum ávinningi næði hún fram að ganga og íslensk stjórnvöld réðust í endurskoðun á laga- og regluverki með þessum hætti. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga hljóti góðan hljómgrunn í þinginu og þeirri nefnd sem fær hana til umfjöllunar. Ég vonast til þess að hún komist hér til síðari umræðu þegar nálgast vor.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, ég hlakka bara til að takast á við umræðuna hér í þinginu.