150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Bestu þakkir fyrir þessa umræðu um rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Umræðan snýst í raun einkum um opinbert stoðkerfi nýsköpunar sem hefur bein og óbein áhrif á alla nýsköpun og hvernig við högum aðstæðum og hvötum til nýsköpunar. Hér hefur verið rakið hversu hrópandi mismunur er á dreifingu fjármagns milli landshluta. Þarna erum við með tilfærslukerfi fjármuna sem vissulega á ekki að dreifast jafnt á alla einstaklinga landsins en verður að nýtast öllum landshlutum. Samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda. Við þurfum og verðum að stunda nýsköpun og rannsóknir um land allt. Þannig tryggjum við samkeppnishæfni landsins í heild. Nýsköpun byggir m.a. á grunni atvinnulífs og náttúru sem nú þegar er til staðar. Svo bætum við hugvitinu við. Ekki var teljandi munur á árangurshlutfalli umsækjenda milli landsvæða en mikið misræmi er í sókn í sjóðina milli landshluta. Þá heyrist oft: Tja, þeir fiska sem róa. En það blasir við að það eru þeir sem fá bát og árar sem fiska. Þeir sem standa á bakkanum gera það ekki. Landshlutar án staðbundinnar háskólastarfsemi og ráðgjafar standa verr að vígi.

Í allt of mörg ár hef ég rætt hvernig mögulegt sé að auka rannsóknastarf og nýsköpun í landsbyggðunum. Niðurstaða mín er að þrennt skipti mestu máli og það þarf að bæta. Það þarf staðbundið háskólanám og háskólastarf í öllum landshlutum. Við verðum að leggja skyldur á háskólana til að það gerist. Það þarf líka að búa til hvata og áhersluverkefni hjá opinberu sjóðunum sem stuðla að eða setja jafnvel í forgang umsóknir beint tengdar landshlutunum og það þarf virkt stoðkerfi um land allt. Bætum því við góða nýsköpunarstefnu og þar er FabLab góð byrjun.