150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:38]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og einnig þakka ég innlegg hæstv. ráðherra. Það kemur í ljós í þessari umræðu að mikill munur er á dreifingu fjármagns til nýsköpunar um landið og á árangri einnig. Sumir landshlutar hafa verið afskiptir. Ég hef eins og hæstv. ráðherra ferðast töluvert um landið að undanförnu og hef orðið var við ákveðið vandamál. Ég ætla því í ræðu minni að tala um landbúnaðinn. Hvernig hefur nýsköpun í landbúnaði verið á undanförnum árum og áratugum? Mig grunar, herra forseti, að þar sé ekki um auðugan garð að gresja þótt vissulega megi finna ljósa punkta eins og t.d. þróun í mjólkurafurðum. Nýsköpun á sér ekki stað nema að mjög litlu leyti meðal bændastéttarinnar sjálfrar. Hún er á horriminni, eins og alkunna er, og þar er ekkert fjármagn til nýsköpunar. Maður heyrir glöggt á bændum þegar maður heimsækir þá að það er ósköp lítið svigrúm til nýsköpunar og jafnvel vantar þekkingu á umsóknum, eins og hér hefur komið fram. Ég vil líka nefna aðrar afurðir, t.d. sauðkindarinnar sem hefur nú alið okkur hér um aldir. Hvað varðar kjöt, ull, gærur o.s.frv. hafa menn af veikum mætti víða um land verið að reyna að skapa meiri verðmæti úr því en gengið mjög brösuglega. Þarna er aldeilis verk að vinna og ég vil benda á að á milli landbúnaðar og sjávarútvegs og nýsköpunar, í þessum tveimur aðalatvinnuvegum þjóðarinnar, er himinn og haf.