150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það er freistandi að blanda sér í hrafnaumræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar en ég tel þó rétt að bregðast við ummælum annars vegar hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og hins vegar hv. þm. Þorsteins Víglundssonar hér áðan um fjölda stjórnarfrumvarpa og fjölda þingmannamála sem verið hafa til meðferðar í þinginu. Þá er það almennt að segja að magn er auðvitað ekki sama og gæði og mælikvarði á árangur og gæði þingstarfanna felst ekki endilega í fjölda samþykktra mála og heldur ekki í fjölda framlagðra mála. Bæði stjórnarfrumvörp og þingmannamál þurfa að fá ítarlega og góða umfjöllun á öllum stigum máls og ég held að oft mætti hafa í huga að þingið mætti oft og tíðum horfa meira á gæðin frekar en fjölda mála eða slíka mælikvarða. Þetta eru þau almennu sjónarmið sem ég vil að komi fram um þetta efni. Sú ríkisstjórn er ekki best sem kemur með flest frumvörpin og afgreiðir sem flest mál. Það er ekki endilega þannig. Það skiptir hins vegar máli að þau mál séu til framfara og til gagns sem fram koma og vonandi verður það í tíð þessarar ríkisstjórnar áfram þannig að hennar aðgerðir skila árangri, ekki á mælikvarða magnsins heldur á mælikvarða gæðanna. (Gripið fram í.)