150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Forsætisráðherra sagði fyrir skömmu að skynsamlegt væri að hefja sölu Íslandsbanka og nota ávinning til innviðafjárfestinga. Rekstrarumhverfi banka breytist hratt. Í því efnahagsumhverfi sem við erum í í dag er það samdóma álit þeirra sem best til þekkja að nú sé ekki góður tími til að selja banka.

Bókfært eigið fé Íslandsbanka var um áramótin 177,6 milljarðar. Söluverðið sem búist er við að fáist fyrir bankann er hins vegar á genginu 0,7 sem þýðir að fyrir hverjar 1.000 kr. sem bankinn á fást 700 kr. Seljandinn, ríkissjóður, fengi því 70% eigið fé fyrir bankann. Ríkissjóður fengi því ekki 177 milljarða fyrir bankann heldur 124 milljarða. Eigið fé bankans stæði því ekki undir væntu söluandvirði hans þar sem það yrði 53 milljörðum kr. lægra. Það er auðvitað dapurlegt. Það verður varla nein biðröð kaupenda nema á lágu verði. Þetta þýðir í raun að betra væri fyrir eigandann að borga sér út eigið fé. Þá myndi hann fá 100% af því. En bankinn verður vissulega ekki lagður niður í einum grænum. Það tæki mörg ár.

Fyrir ríkissjóð er í raun hagstæðara að lækka eigið fé með arðgreiðslum en að selja bankann undir bókfærðu verði. Fljótvirkasta og skynsamlegasta leiðin fyrir ríkissjóð er því að greiða sér allan þann arð sem hann getur. Það er hægt með því að endurskipuleggja efnahagsreikning bankans og breyta samsetningu eigin fjár, nýta þau tækifæri sem eigandinn, ríkissjóður, hefur til að hámarka arðsemina án þess að selja bankann. Það á ekki að færa kaupendum bankans þessi tækifæri á silfurfati. Einnig er skynsamlegt fyrir ríkissjóð að selja eignir úr bankanum og fá þannig fé í innviðauppbyggingu. Má þar nefna fyrirtækið Allianz sem er í eigu Íslandsbanka, vel rekið og verðmæt eign.

Herra forseti. Íslandsbanka á ekki að selja á undirverði.