150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að ljúka þinglegri meðferð málsins til að svara því hvaða atriði kæmi til greina að útlista nánar í reglugerðinni. Hér erum við m.a. að vinna með þá stöðu að það kann að vera að rekstraraðila sé kunnugt um atriði sem leiði til þess að hann verði hvort eð er ekki rekstrarhæfur að einhverjum tíma liðnum. Með því að láta það standa í lögunum, með því að gera menn ábyrga fyrir upplýsingagjöf um að þeim sé ekki kunnugt um nein slík atriði, komum við í veg fyrir að við séum að veita lán á sérstaklega hagstæðum kjörum þeim sem geta hvort eð er ekki bjargað sér með þessum stuðningsaðgerðum. Það er grundvallarhugsunin.

Þetta er auðvitað vandasamt að útfæra í lögum, fylgja eftir og hafa eftirlit með, en ég held engu að síður að það sé gríðarlega mikilvægt að við sammælumst um að við grípum ekki til aðgerða sem fyrirtæki njóta góðs af sem hafa hvort eð er engan rekstrargrundvöll (Forseti hringir.) þegar aðstæður hafa lagast.