150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa upp þetta tiltekna skilyrði, sem menn hafa staldrað við og hv. þingmaður spyr út í, sem hljómar svona í greininni:

„Ætla má, á grundvelli hlutlægra viðmiða varðandi rekstur hans á undangengnu ári, að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar eru liðin hjá.“

„Ætla má“ — þetta er nú mjög mjúklega orðað. Viðkomandi þyrfti þá beinlínis að hafa ástæðu til að ætla að hann yrði ekki rekstrarhæfur, jafnvel þótt allt yrði í blóma og við værum komin í eðlilega stöðu. Í því sambandi væri t.d. nærtækt að líta til fortíðar og skoða hvort við ætti viðvarandi hallarekstur á undanförnum árum sem væri að éta upp allt eigið fé sem væri að nálgast núll og menn hefðu aldrei í þessum tiltekna rekstri náð að vera réttum megin við núllið þrátt fyrir að við höfum gengið í gegnum tímabil þar sem hingað koma 2 milljónir ferðamanna o.s.frv. Það eru svona atriði. Það þarf samkvæmt þessu ákvæði að vera nokkuð augljóst (Forseti hringir.) að viðkomandi aðili var hvort eð er, áður en þetta mál kemur upp, á leiðinni í tóm vandræði.