150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi síðasta atriðið er það kannski með vísan til tilgangs lánanna, það er skörun í tilgangi þessara tveggja úrræða. En 4. maí er hér nefndur vegna þess að í þeirri ákvörðun sem þegar hefur verið tekin er gert ráð fyrir að alls konar starfsemi sem hefur verið gert að loka geti opnað að nýju á þeim tímapunkti, t.d. nuddarar, sjúkraþjálfarar, valkvæðar aðgerðir o.s.frv., allt með vísan til auglýsingarinnar. Hér er því verið að horfa til þess tímabils sem líður fram til 4. maí og bæta mönnum tjón sem hefur orðið á því tímabili. Síðan kann að þurfa vegna þeirra takmarkana sem áfram verða í einhverjum tilvikum að skoða frekari úrræði. Það verður bara að koma í ljós og ræðst auðvitað af því hvernig okkur gengur áfram að fást við útbreiðslu veirunnar eða stöðva hana og hvaða afleiðingar það hefur á ákvarðanir um þessi efni.