150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisábending hjá hv. þingmanni. Ef við gefum okkur að það séu almennt til staðar veð hjá lántaka þá held ég að við myndum geta litið svo á að lánastofnanir myndu bara almennt veita lán, enda hefðu þær veð til tryggingar útlánum. En við þær aðstæður sem hér hafa skapast getum við ekki gert ráð fyrir því að veð og tryggingar séu til staðar og þess vegna er ríkisábyrgðin til komin, til að hvetja lánastofnanir til að taka einhvern hluta útlánatapsáhættunnar þrátt fyrir veðleysi. Í þessu tilviki, með stuðningslánin, erum við að ganga út frá því að það sé í raun sama staða uppi nema við ætlum að taka 100% ábyrgð á þeim lánum.

Ég vil segja til viðbótar að það er ekki þannig að fari sum fyrirtækja sem fá stuðningslán á hausinn hafi þessi aðgerð misheppnast með einhverjum hætti. Það er það alvarleg staða uppi í kerfinu hjá okkur að við verðum að gera ráð fyrir því að þetta dugi ekki mörgum fyrirtækjum, það er bara því miður þannig.