150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég held að það sé mikill kostur ef það teiknast upp núna og fyrirtæki geta farið að vinna út frá því að svör eða niðurstaða fyrirgreiðslubeiðna hvað brúarlán varðar séu til lúkningar fyrri part maí. Ég held að mjög margir hafi verið að vonast til þess að þetta ferli yrði búið í tíma þannig að mál væru afgreidd fyrir þessi mánaðamót. Manni heyrist það mjög víða úr atvinnulífinu að margir hafi treyst á að svo yrði. En ég held að það sé þó alla vega kostur að það liggi fyrir núna fjórum, fimm virkum dögum fyrir útborgun að svo verði ekki heldur en að menn séu í rauninni fram á síðustu stundu að treysta á að það verði lausnin, þannig að þetta sendir auðvitað þau skilaboð inn til bankakerfisins: Nú þurfið þið að standa með ykkar fyrirtækjum. Ég held að það sé mjög gott.

Ég er ánægður að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra við því að skoða viðmið um veltu og hvað veltulækkunina varðar. En ég átta mig á því sömuleiðis að þetta er ekki einfalt, og af því að í hina röndina kallar sá sem hér stendur eftir því að aðgerðirnar séu almennar og skýrar þá átta ég mig alveg á því að slík markmið stangast á við það.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, þó að það sé ekki hluti af þessu máli og hann kemur sér þá bara hjá því ef honum hugnast ekki að ræða það núna, um hlutabótaleiðina. Ég hef miklar áhyggjur af henni og reiknaði frekar með að breytingar á henni yrðu hluti af aðgerðapakka sem kynntur var í gær. Þar er það auðvitað það atriði sem mörg fyrirtæki hafa flaggað sem stórkostlegu vandamáli, þ.e. að aðilar sem eru í vandræðum með að standa undir 25% laununum, eru algerlega tekjulausir, sjá fram á það að þegar þeir segja upp starfsmönnum sem þeir munu ekki hafa þörf fyrir eftir að ástandið byrjar að skána, þá verði það mögulega banabiti.(Forseti hringir.) Það að lenda í 100% launum í þrjá mánuði fyrir þá sem eru með þess háttar ráðningarsamband verði að óyfirstíganlegum hjalla. (Forseti hringir.) Hvernig horfir sú staða við hæstv. ráðherra?