150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[18:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og lögum um virðisaukaskatt vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Jafnframt eru lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lagt til að rýmkuð verði heimild lífeyrissjóða til að eiga í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Þar er verið að hækka hlutfallið upp í 35% með nánar tilgreindum skilyrðum.

Þegar hafa verið samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum þessa faraldurs. Hér er því um að ræða annað skref stjórnvalda í þá átt að koma til móts við þann samdrátt sem orðið hefur í íslensku atvinnulífi. Í frumvarpinu er jafnframt að finna breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir og lögum um fjölmiðla.

Ég ætla nú að fjalla um einstök efnisatriði frumvarpsins, í fyrsta lagi frestun skattgreiðslna lögaðila. Fyrirséð er að mörg fyrirtæki munu skila hagnaði vegna rekstrar á árinu 2019 en tapi vegna rekstrar á árinu 2020. Lagt er til að lögaðilum með takmarkaða ábyrgð verði gefinn kostur á að fresta skattgreiðslu vegna 2019 og jafna á móti tapi ársins 2020 þegar það raungerist. Aðgerðin leiðir til þess að fyrirtæki sem sjá fram á tap á yfirstandandi ári geta sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts þar til álagning næsta árs liggur fyrir og lækkað skattkröfuna sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins, að uppfylltum skilyrðum laganna. Samkvæmt núgildandi skattalögum er heimilt að færa tap yfir á næstu tíu rekstrarár, nefnt yfirfæranlegt tap, en ekki hefur verið heimilt að færa tap yfir á fyrri ár, nefnt afturfæranlegt tap, en nú er lagt til að þetta verði gert.

Aðgerðin mun styrkja lausafjárstöðu fyrirtækja og rekstur þeirra og gera fyrirtækjum betur kleift að takast á við þær krefjandi aðstæður sem nú eru uppi vegna Covid-19. Hámark þess skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á er 20 millj. kr. Miðar úrræðið þannig fyrst og fremst að litlum og meðalstórum fyrirtækjum en um 98% þeirra fyrirtækja sem skiluðu hagnaði í álagningu 2019 vegna rekstrarársins 2018 voru með skatt til greiðslu undir 20 millj. kr. Þannig myndi það hafa verulega mikil áhrif að hækka þetta viðmið úr 20 millj. kr. upp í 25 millj. kr. hvað varðar heildarfjárhæðina en við værum þá fyrst og fremst að fresta skattgreiðslu stórra fyrirtækja.

Næst vil ég nefna skattalega meðferð á eftirgjöf skulda lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Eftirgjöf skulda er skattskyld og öll gæði sem metin verða til fjár eru tekjufærð hjá skattaðila. Undanþáguákvæði tekjuskattslaga um eftirgjöf skulda við nauðasamning tekur aðeins til einstaklinga og ekki til aðila í atvinnurekstri. Á eftirhrunsárunum var brugðist við þessu með ákvæði til bráðabirgða um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda, sem giltu fyrir rekstrar- og tekjuárin 2009–2011, þegar fjöldi fyrirtækja fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Skilyrðin voru að til skuldanna hefði verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn og að yfirfæranlegt tap auk rekstrartaps ársins hefði verið jafnað. Gengið var svo skrefinu lengra með nýju ákvæði til bráðabirgða til frekari rýmkunar á reglum með ákveðnum skilyrðum, þ.e. að félaginu væri ekki heimilt að taka þátt í samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili án heimildar ríkisskattstjóra. Bráðabirgðaákvæðin voru bæði framlengd allt til ársins 2014. Í ljósi þess ástands sem frumvarpi þessu er ætlað að bregðast við er lagt til að svipaðar reglur taki gildi vegna áranna 2020, 2021 og 2022 í tengslum við niðurfærslu skulda lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri vegna greiðsluerfiðleika.

Það væri hægt að fara út í nokkuð langt mál um þetta tiltekna atriði en við erum hér að ræða um að gera þessar breytingar á skattalegri meðferð niðurfærslu krafna óháð því hvort niðurfærslan hefur átt sér stað innan nauðasamninga eftir greiðslustöðvun eða bara í frjálsum samningum og horfum til þess að í sumum tilvikum þegar þarf að fara í slíka samninga, hvort sem er utan eða innan þessara úrræða sem eru lögbundin, kunni að vera takmarkað fjármagn til ráðstöfunar til að ná samningum um niðurfærslu krafna. Menn eru með eitthvert takmarkað fjármagn og til að geta náð samningum um niðurfellingu krafna þurfa menn að leggja eitthvað af mörkum, borga eitthvert hlutfall af kröfunum, segjum 20% til að fá 80% niðurfelld, enda eru allir sammála um að ella færi fyrirtækið í þrot. Það er býsna hart ef sú staða getur vaknað við þessar aðstæður að fyrir niðurfellingu á 80% hlutanum vakni skattkrafa sem taki það litla sem er til skiptanna í félaginu og nýtist þannig ekki til að bjarga því. Þetta er ein grundvallarforsendan fyrir því að þetta er hér lagt til.

Við erum þá komin að þriðja atriðinu sem er efling nýsköpunar. Ég vil fyrst nefna að lagt er til að við gerum breytingu til bráðabirgða á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem lýtur að frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar þeirra á rannsóknar- og þróunarverkefnum sem þau eru eigendur að og hlotið hafa staðfestingu Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Ranníss. Frádráttarhlutfallið mun því hækka úr 20% í 25% og er hækkunin í samræmi við þau mörk sem hinu opinbera er heimilt að viðhafa við ríkisaðstoð sem þessa, samanber reglugerð um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar til bráðabirgða á sömu lögum sem lúta að því að hækkaðar verði núgildandi viðmiðunarfjárhæðir skattfrádráttar frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Annars vegar felur tillagan í sér að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 600 millj. kr. í 900 millj. kr. ef viðkomandi fyrirtæki er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum. Hins vegar er lagt til að sambærilegar fjárhæðir hækki úr 900 millj. kr. í 1.100 millj. kr. þegar rannsóknar- og þróunarvinna er keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun.

Næst ber að nefna endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Við ræddum þennan möguleika við fyrsta aðgerðapakkann en hér er sem sagt lagt til að til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir öðlist sveitarfélög eða stofnanir og félög sem eru alfarið í eigu þeirra tímabundinn rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði sem alfarið er í eigu þeirra. Með breytingunni verður sveitarfélögum eða stofnunum og félögum sem alfarið eru í eigu þeirra veitt samsvarandi heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts og þeim var veitt með lögum árið 2009 og er hluti þeirra ráðstafana sem gripið var til í kjölfar fjármálakreppunnar.

Þá er í frumvarpinu lagt til að rýmkuð verði heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem er liður í að bæta fjárfestingarumhverfi nýsköpunar hér á landi, t.d. með því að auðvelda stofnun nýsköpunarsjóða. Heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í slíkum sjóðum má að lögum að hámarki nema 20% í hverjum sjóði en í frumvarpinu er lagt til að heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum eða hlutum í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu verði hækkuð tímabundið í 35%. Með breytingunni þyrftu þrír lífeyrissjóðir að hafa aðkomu að sjóði, í stað fimm í dag, sem myndi auðvelda fjármögnun slíkra sjóða og styðja við áætlun stjórnvalda um að bæta fjárfestingarumhverfi nýsköpunar hér á landi. Önnur áform stjórnvalda sem snúa að sama markmiði er stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram á Alþingi og ef ég veit rétt er það hér á dagskrá í dag.

Ég vil aðeins nefna stuttlega um þessa tilteknu tillögu að það eru frekari skilyrði í frumvarpsgreininni sem ég vænti að nefndin fari nánar ofan í eins og varðandi hlutfall heildareigna lífeyrissjóðs. Það er ástæða til að skoða með hliðsjón af því hvort þrátt fyrir hækkunina upp í 35% kunni að vera þröskuldar af því tagi fyrir því að markmiði ákvæðisins sé náð, þ.e. varðandi atriði eins og hlutfall heildareigna.

Varðandi tekjustofna sveitarfélaga eru hér lagðar til breytingar á lögum um þá. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á heimild til að veita framlög úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sjóðnum var komið á fót í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011. Hlutverk sjóðsins var að taka yfir réttindi og skyldur tengdar fasteignum í eigu ríkisins sem nýttar höfðu verið í þjónustu við fatlað fólk. Jafnframt tók hann yfir eignir, réttindi og skyldur Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem var lagður niður. Með lögum var sjóðnum markað það hlutverk að veita sveitarfélögum framlög vegna uppbyggingar eða breytinga á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir. Eru framlög sjóðsins því bundin við verkefni er tengjast fasteignum sem eru fyrst og fremst nýttar í þjónustu við fatlað fólk með miklar eða sértækar stuðningsþarfir, svo sem sambýli.

Sem hluti af aðgerðum sveitarfélaganna vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 var lagt til að sjóðurinn kæmi einnig að verkefnum er varðaði aðgengismál fatlaðra, en ljóst þótti að slík verkefni myndu falla fyrir utan hlutverk sjóðsins eins og það var skilgreint í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Því er lögð til sú breyting að sjóðnum verði einnig heimilt að veita framlög til sveitarfélaga vegna framkvæmda sem hafa þann tilgang að bæta aðgengismál fatlaðra í byggingum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga.

Einnig er lagt til að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði veitt heimild til að nýta fjármuni fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða almenn framlög, grunnskólaframlög og framlög vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2020. Tilgangurinn er að minnka áhrif tekjutaps jöfnunarsjóðs vegna Covid-19 á almenn framlög sjóðsins á þessu ári.

Ég ætla næst að ræða um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví. Í lögum um þær greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir kemur fram að lögin taka til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur kemur fram að lögin gildi um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá kemur fram að lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Lagt er til að tímabilið sem lögin taka til verði framlengt þannig að þau taki til þeirra tilvika þegar framangreindir einstaklingar sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 30. september 2020.

Markmið laganna er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Þess vegna þykir mikilvægt að gildistími laganna verði framlengdur til 30. september þar sem enn er nokkur óvissa um þróun faraldursins þó að okkur hafi gengið vel að undanförnu að kveða hann niður og að nýsmitum sé mjög að fækka.

Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um að lögin gildi ekki hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið utan þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld gefið það út að þeir sem dvelji í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu. Þá er lagt til að unnt verði að sækja um greiðslur samkvæmt lögunum til loka þessa árs.

Að lokum, virðulegi forseti, er með breytingartillögu við lög um fjölmiðla lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði á þessu ári heimilt með reglugerð að útfæra fyrirkomulag á greiðslu sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla vegna þess víðtæka rekstrarvanda sem steðjar nú að einkareknum fjölmiðlum vegna faraldursins. Verulegur fjöldi einkarekinna fjölmiðla hér á landi hefur staðið höllum fæti síðustu ár. Rekstrarforsendur þeirra hafa versnað til muna, svo sem vegna örra tæknibreytinga og minnkandi auglýsingatekna samhliða breyttri neysluhegðun fyrirtækja á markaði. Samhliða þessum erfiðu áskorunum sem einkareknir fjölmiðlar hafa staðið frammi fyrir blasir nú við fyrirsjáanlegt tekjufall vegna samdráttar í fjölda atvinnugreina vegna farsóttarinnar. Í ljósi þessa er í frumvarpinu lagt til að brugðist verði við með einskiptisaðgerð til að greiða fyrir rekstri einkarekinna fjölmiðla hér á landi vegna þeirra tímabundnu rekstrarerfiðleika sem rekja má til heimsfaraldursins. Sterkir einkareknir fjölmiðlar eru sérstaklega mikilvægir á tímum sem þessum vegna hlutverks þeirra við að stuðla að upplýsingu og umræðu í samfélaginu, auk þess að veita stjórnvöldum aðhald og efla almannavarnir í þeirri víðtækari merkingu sem hugtakið hefur öðlast meðan faraldurinn hefur staðið yfir.

Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið verði frumvarpið óbreytt að lögum. Gróflega má áætla að tillaga frumvarpsins er lýtur að nýtingu rekstrartaps með afturvirkum hætti geti lækkað tekjur ríkissjóðs um allt að 13 milljarða kr. á þessu ári. Til lengri tíma litið jafnast þetta út og hefur takmörkuð fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð þar sem gert er ráð fyrir að fyrirtæki muni eiga minna yfirfæranlegt tap á móti hagnaði næstu ára og greiða þar af leiðandi fyrr tekjuskatt á ný en ella.

Að svo stöddu er erfitt að meta umfang fjárhagslegrar endurskipulagningar lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri næstu ár og þar með hvaða áhrif frestun og möguleg eftirgjöf skattlagningar vegna niðurfærslu skulda kunni að hafa á ríkissjóð. Hins vegar voru fyrirtæki almennt meira skuldsett og með lægra eiginfjárhlutfall fyrir hrun en í dag og standa vonir til þess að fjárhagsleg endurskipulagning lífvænlegra fyrirtækja komi til með að skila árangri, m.a. með þessum aðgerðum.

Hækkun á frádráttarhlutfalli af álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja vegna útlagðs kostnaðar þeirra af rannsóknar- og þróunarverkefnum leiðir til þess að stuðningur við fyrirtækin í formi skuldajöfnunar á tekjuskatti og beinna endurgreiðslna eykst árin 2021 og 2022 vegna rekstraráranna 2020 og 2021.

Hækkun á hámarksfjárhæðum frádráttarbærs kostnaðar hefur viðbótaráhrif til hækkunar á stuðningnum. Samanlagt má áætla að stuðningurinn aukist um 3 milljarða kr. Heildaráhrifin á fjármál ríkissjóðs ættu þó með tímanum að verða jákvæð enda tilgangur breytinganna að stuðla að aukinni nýsköpun með jákvæðum áhrifum á almannahagsmuni og aukinni hagsæld til framtíðar.

Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga eða stofnana og félaga alfarið í þeirra eigu af kostnaði við vinnulið við byggingu, endurbætur eða viðhald mun draga úr kostnaði og því liðka fjárhagslega fyrir slíkum framkvæmdum. Ríkissjóður mun gefa eftir skatttekjur og verður sú eftirgjöf meiri en þær skatttekjur sem að óbreyttu hefðu fengist þar sem gert er ráð fyrir hvetjandi áhrifum af heimildinni.

Sé tekið mið af fyrirliggjandi áætlunum sveitarfélaga um framkvæmdir á árinu 2020 og enn fremur litið til nýtingar endurgreiðslna samkvæmt hliðstæðri heimild sem var í gildi á árunum 2009–2014 má áætla að endurgreiðslur til sveitarfélaga gætu orðið a.m.k. 1 milljarður kr. sem dreifist þá yfir árin 2020 og 2021. Ríkið mun njóta góðs af því í staðgreiðslu verði af þessu mörg ný störf sem ella hefðu ekki orðið sem kæmi þá til frádráttar þeim kostnaði sem hægt er að leiða beint af endurgreiðslu virðisaukaskattsins.

Í frumvarpinu er lögð til sérstök hækkun á heimild lífeyrissjóða til að eiga í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta eingöngu í litlum eða meðalstórum nýsköpunarfyrirtækjum. Þessi viðmið eru, eins og ég hef hér rakið, að færast úr 20% upp í 35% en það er sömuleiðis það hámark að hver lífeyrissjóður megi ekki hafa meira en 1% heildareigna sinna í slíkum sjóðum. Mér finnst að skoða megi í nefndarvinnunni hvort það kunni að vera hamlandi með einhverjum hætti. Heildareignir lífeyrissjóðanna nema í dag um 5.000 milljörðum kr. Þetta er ótrúleg fjárhæð þannig að lífeyrissjóðum verður gert mögulegt að eiga í áðurnefndum sjóðum fyrir sem nemur allt að 50 milljörðum kr. ef við horfum á 1% viðmiðið. Ekki hefur farið fram mat á því hvort þessi fjárhæð sé nákvæmlega í samræmi við fjárfestingarþörf eða framboð á fjárfestingum í umræddum sjóðum en við teljum að þessi heimild sé til þess fallin að auka fjölbreytni eignasafns lífeyrissjóðanna og, það sem kannski er mest um vert, ýta undir verkefni í rannsóknum og þróun sem skapa verðmæti til lengri tíma litið og styðja við atvinnustigið.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á úthlutunarheimildum fasteignasjóðs sem munu hafa jákvæð áhrif á aðgengismál. Þetta mun færa fjármuni tímabundið úr fasteignasjóði til greiðslu almennra framlaga, grunnskólaframlaga og málefna fatlaðs fólks og milda áhrif tekjutaps jöfnunarsjóðs. Ekki er gert ráð fyrir kostnaðarauka á ríkissjóð vegna breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og frumvarpið hefur hvorki áhrif á heildartekjur né heildarútgöld jöfnunarsjóðsins.

Sú aðgerð heilbrigðisyfirvalda að gefa bein fyrirmæli um að einstaklingar sæti sóttkví er fyrsta stigs aðgerð til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Í frumvarpi sem varð að lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir kemur fram að mikil óvissa hafi ríkt um þróun faraldursins og að ómögulegt væri að segja til um hversu lengi þyrfti að grípa til sérstakra aðgerða vegna hans. Því hafi ekki verið forsendur til að leggja mat á hugsanlegan fjölda þeirra sem gætu átt rétt á greiðslum í samræmi við frumvarpið. Var þar miðað við að heildarfjöldi þeirra sem kæmu til með að sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar–30. apríl á þessu ári yrði um 5.000 einstaklingar og að fjöldi þeirra sem frumvarpið næði til yrði um 2.500–3.000 einstaklingar að hámarki. Þetta hefur spilast þannig að þann 20. apríl höfðu rúmlega 18.000 einstaklingar lokið sóttkví og rúmlega 1.100 einstaklingar voru í henni þann dag. Má því ætla að nálægt fjórfalt fleiri einstaklingar komi til með að sæta sóttkví á þessu tímabili en gert var ráð fyrir í skýringum með framangreindu frumvarpi.

Áfram ríkir óvissa um þróun faraldursins og ekki eru forsendur til að leggja mat á hve margir muni fara í sóttkví fram til 30. september. Það má gera ráð fyrir því, eins og ég hef aðeins komið inn á hér, að útbreiðsla sjúkdómsins fari minnkandi og þá muni þeim einnig fækka sem fá fyrirmæli um að sæta sóttkví.

Að lokum er rétt að taka fram að gert er ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla verði allt að 350 millj. kr.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.