150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir mjög góða og ítarlega yfirferð. Mig langar að byrja á því að hefja spurninguna á þeim stað þar sem hæstv. ráðherra lauk máli sínu, þ.e. á fjölmiðlunum. Nú hefur ríkisstjórnin ekki klárað á tímabilinu fyrirliggjandi fjölmiðlafrumvarp og það er, eins og hefur komið skýrt fram, ekki síst vegna andstöðu við frumvarpið úr röðum þingflokks hæstv. ráðherra. Þar er verið að tala um fé til styrktar einkareknum fjölmiðlum upp á 400 millj. kr. Mig langar því til að spyrja í fyrsta lagi hvernig þessi einskiptisupphæð, 350 milljónir, er fengin. Það liggur fyrir að um er að ræða gríðarlegt tekjutap fyrir fjölmiðla, líkt og flest önnur fyrirtæki á einkamarkaði, og upphæðin er lág í þeim skilningi. Ég velti fyrir mér hvernig hún er fengin og hvort ráðherra sé sannfærður um að hún skipti sköpum við þær aðstæður sem fjölmiðlarnir búa núna, hvort farið var í að skoða framtöl, mögulegar auglýsingatekjur og leggja raunhæft mat á stöðuna og hvað þyrfti til að bæta skaðann til að fjölmiðlar geti sinnt hlutverki sínu.

Þá er ég eiginlega komin að seinni spurningunni varðandi þennan málaflokk. Það er ljóst að aðhaldshlutverk fjölmiðla er aldrei mikilvægara en akkúrat þegar á móti blæs. Mér finnst aðhald jákvætt, mér finnst það jákvætt fyrir ríkisstjórn og fyrir öll stjórnvöld að sæta réttlátu og stífu aðhaldi frjálsra fjölmiðla. Ég meina það af hjartans einlægni og ég segi: Það er ekki gott fyrir ríkjandi stjórnvöld, og ekki fyrir nein stjórnvöld, að við aðstæður sem þessar séu fjölmiðlar í spennitreyju, annars vegar í spennitreyju vegna þess tekjufalls sem þeir hafa orðið fyrir, líka vegna þess að málið hefur legið svo lengi óklárað hjá ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Nú liggur fyrir þessi víðtæka reglugerðarheimild ráðherra og eins og hæstv. fjármálaráðherra kemur inn á hefur menntamálaráðherra, ráðherra fjölmiðla, (Forseti hringir.) út árið til að ganga frá því.

Er hæstv. fjármálaráðherra ekki sammála mér í því að það er of langur tími? (Forseti hringir.) Er þetta ekki eitthvað sem þarf að gerast núna svo þetta sé ekki hangandi yfir fjölmiðlum og þar af leiðandi með mögulegum áhrifum á umfjöllun þeirra?