150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[15:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er vart hægt að finna augljósara mál fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd en þetta, mál sem er ætlað að leggja línurnar um öll meginsamgöngumál á höfuðborgarsvæðinu til næstu 15 ára. Ef þetta mál fer í fjárlaganefnd, hvaða samgöngumál eða nokkurt mál sem yfir höfuð felur í sér útgjöld ætti þá heima annars staðar en í fjárlaganefnd? Þá er ástæða til að minnast á augljós tengsl þessa máls við málið sem var rætt hér í gær á undan málinu sem við ræðum nú sem varðar upptöku veggjalda annars staðar á landinu sem fer í umhverfis- og samgöngunefnd. Er ekki eðlilegt að ræða þessi mál saman? Mér finnst það augljóst. Það er undarlegt ef mál sem á að leggja línurnar um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin á ekki að fara til hv. samgöngunefndar.