150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hárgreiðslustofa mun ekki, eða eigandi hennar, eiga á hættu að verða dæmd til sektar eða í fangelsi vegna þess að það er alveg ljóst að viðkomandi þurfti að loka samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Þeir sem uppfylla ákvæði um lokunarstyrki eru eingöngu þeir rekstraraðilar, einstaklingar og lögaðilar, sem þurftu að loka, hætta sinni starfsemi, tímabundið vegna ákvarðana stjórnvalda. Þeim var bannað að taka á móti viðskiptavinum á hárgreiðslustofum. Rakaranum mínum var bannað að taka á móti mér eins og sást hér á síðustu vikum. Ég lít nú aðeins betur út núna. Þannig að það er ekki. Ég segi: Þegar nefndin er að leggja til að herða hér refsiákvæði er það í samræmi við önnur fjársvikamál, í samræmi við hegningarlög, innherjaviðskipti o.s.frv. Þetta er ákvæði um allt að sex ára fangelsi og auðvitað þýðir það að þegar dómari metur hvort til refsingar, refsivistar, fangelsisvistar komi þá hlýtur refsingin að endurspegla alvarleika brots og umfang þess þannig að allt að sex ára fangelsi þýðir ekki skipun frá okkur um að allir skuli vera dæmdir í sex ára fangelsi nema síður sé.