150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er einhver misskilningur á ferðinni. Fullt af íslenskum félögum eru með starfsemi eða eiga eignarhlut í félögum sem eru á skilgreindu lágskattasvæði. Það er ekki skattaskjól, það er ekki það sama. Lágskattaríki í einni atvinnugrein eða jafnvel einu fyrirtæki getur verið mismunandi. Og í einstökum tilfellum gæti Ísland meira að segja, þó að það sé háskattaland, verið skilgreint sem lágskattasvæði, vegna skattalegs umhverfis, endurgreiðslna o.s.frv. Noregur telst í sumum tilfellum vera lágskattasvæði í einstökum atvinnugreinum.

Ég spyr hv. þingmann: Er það alveg víst að hv. þingmaður vilji ganga svo fram að ýmis sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki, þeir sem hafa verið að hasla sér völl með glæsilegum árangri víða um heim en hafa stofnað dótturfélög til að styðja við þá starfsemi, útrásina — í sumum tilfellum eru þessi félög skráð í löndum innan Evrópusambandsins sem samkvæmt skilgreiningu eru á lágskattasvæði vegna þess að skilgreiningin liggur í hlutarins eðli og er skýr í 57. gr. a tekjuskattslaganna. Það kemur mér hins vegar á óvart og er ekki í samræmi við allan málflutning hv. þingmanns sem ég hef hlustað á, að hann sé hættur að hafa áhyggjur af jafnræðisreglunni. Það kom mér verulega á óvart.