150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:38]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ræðuna og samstarfið í nefndinni um þetta mál og önnur mál sem tengjast faraldrinum. Þingmaðurinn kom í lok ræðu sinnar inn á mjög áhugaverðan punkt þar sem hún ræddi með hvaða hætti við myndum meta árangur aðgerðanna. Ég held að það sé nokkuð sem á kannski ekki meira við núna en endranær, en ég held að þetta sé afskaplega mikilvæg nálgun hjá þingmanninum. Það skiptir máli að við getum með einhverju móti áttað okkur á því, og jafnvel í rauninni jafnharðan og úrræðin verða til, hvað skiptir mestu máli, hvað virkar best o.s.frv. Og það skiptir líka máli fyrir okkur sem samfélag að við reynum að fá tilfinningu fyrir því með greinargóðum hætti hvernig við verjum skattfé, eins og þingmanninum var tíðrætt um, hvar það nýtist best o.s.frv.

Það sem mig langaði í þessu sambandi að inna þingmanninn eftir er hvort hún hafi velt því upp eða mótað sér einhverjar hugmyndir um hvernig við eigum að gera þetta, þ.e. hvaða leiðir séu bestar í þessu og hverjir eigi að vinna þá vinnu og hverjir eigi að hafa aðkomu að henni. Vegna þess að fyrir okkur sem samfélag held ég að þessi nálgun þingmannsins sé afskaplega mikilvæg.