150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þingmaðurinn nefndi fjármálaráð og ég get alveg tekið undir með henni að það geti verið ágætisnálgun að fá fjármálaráð til að líta yfir þessa aðgerðapakka og reyna að sjá samhengið í þeim, ekki hvað síst í ljósi þess að sennilega erum við öll sammála um að ríkissjóður sé ekki botnlaus hít heldur sé slagkrafturinn háður einhverjum takmörkunum. Þess vegna skiptir máli að vita hvers konar vendir sópa best í svona efni.

Þingmaðurinn nefndi einnig möguleikann á að fá einhverja sérfræðinga eða aðra utanaðkomandi skoðun. Ég velti því líka fyrir mér hvort t.d. háskólasamfélagið eða einhvers konar sérfræðinganefnd eða blanda af sérfræðinganefnd og þingmannanefnd, eitthvað þess háttar, gæti mögulega komið þarna að verki því að þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Við sjáum það til að mynda núna, og ég veit að þingmaðurinn er mér sammála í því, að margt af því sem við reyndum í hruninu virkaði kannski ekki nógu vel, það á kannski ekki alveg við á sama hátt núna og þá. En við erum ekkert endilega að prófa alla hluti aftur eða setja alla hlutina inn aftur. En margt af því sem virkaði ágætlega, eins og til að mynda hlutabótaleiðin, er okkur nú kunnuglegt tæki og gagnast okkur. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við sem samfélag lærum af hruninu eða kreppum eins og þessum. (Forseti hringir.) Þá getum við kannski nýtt okkur meðvindinn sem skapast í kjölfarið til að koma okkur áfram.