150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og get tekið undir margt af því sem hann sagði, sérstaklega þegar kemur að því að við höfum verið að horfa upp á það að aðgerðir sem við höfum lagt nótt við nýtan dag við að setja saman hafa verið misnotaðar af sumum fyrirtækjum. Er það náttúrlega ákaflega dapurlegt og ég ætla að vona að búið sé að tryggja það algjörlega með þeim aðgerðum sem við erum að ræða í þessu frumvarpi, stuðningslánunum, að það komi ekki til að menn geti farið að misnota það eins og við höfum séð með hlutabótaleiðina.

Það sem mig langaði aðeins að koma inn á við hv. þingmann er álit hans á því hvort ekki hefði átt að skoða það að útvíkka þessa lokunarstyrkjaleið. Ég nefndi þetta sérstaklega varðandi veitingastaðina í andsvari við hv. formann nefndarinnar, hv. þm. Óla Björn Kárason, hvort menn sjái fyrir sér að þeir sem eiga eingöngu rétt á þessum stuðningslánum gætu hugsanlega með einhverjum hætti átt rétt á lokunarstyrkjum. Við megum ekki gleyma því að að það er mjög mikilvægt að halda þessum fyrirtækjum á floti. Ef fjöldagjaldþrot verður í greininni sjáum við fram á að mun erfiðara verði fyrir okkur að ná okkur á strik þegar ferðamenn fara að koma hingað aftur sem við vonum að verði sem fyrst, vonandi á haustmánuðum eða síðla sumars hugsanlega, að fyrirtækin séu í stakk búin að taka við því. Þess vegna verður með öllum tiltækum ráðum að forða því að fjöldagjaldþrot verði í greininni.

Ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á þetta, hvort hann sæi fyrir sér að hægt væri að útvíkka þessa lokunarstyrki með einhverjum hætti í næstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem er búið að boða.