150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[18:57]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mikið í þessu máli. Eins og kom fram hjá hv. formanni atvinnuveganefndar er sá sem hér stendur og hv. þm. Ólafur Ísleifsson með fyrirvara, sem formaður nefndarinnar gerði grein fyrir í máli sínu og ég þakka formanninum fyrir að taka það fram í ræðunni að hún muni kalla til sérfræðinga til að enginn sé vafi á að öllum sóttvörnum sé haldið til haga.

Þetta virkar og virðist vera lítið mál en okkur finnst það samt sem áður vera mjög stórt ef ég segi bara sem svo og það komi skýrt fram að við munum fylgja þessu eftir, að sóttvörnum sé á engan hátt ógnað með samþykki þessa frumvarps. Eins og kom fram í máli formannsins stendur til að það verði gert. Og kannski bara til að taka það fram á þessum tímum þar sem heimurinn er á hliðinni út af veirufaraldrinum, Covid-19, ættum við kannski að fara enn varlegar hér heima. Það getur vel verið að einhverjum dytti í hug að flytja inn leðurblöku og þá er eins gott að standa vel að því og þó að maður vilji taka þátt í að gæta meðalhófs í meðferð dýra, það leikur enginn vafi á því, þá hófst þessi faraldur í smitum að talið er frá leðurblökum. Þannig að það getur skeð í öðrum dýrategundum líka. En ég vildi bara hnykkja á þessu. Ég þakka enn og aftur formanni fyrir að taka vel í þennan fyrirvara.