150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[19:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Landsmenn sem hlustuðu heima hjá sér á Álfheiði Eymarsdóttur fara yfir þessa breytingartillögu okkar Pírata geta spurt: Hvers vegna voru þessi atriði ekki bara sett inn í efnahags- og viðskiptanefnd? Það er verið að skjóta loku fyrir að hægt sé að misfara með það fé sem er núna verið að ausa úr pottum landsmanna, af skattfé landsmanna. Bæði hægri menn og vinstri menn ættu að vera sammála um að það ætti að fara vel með þessa peninga. Við erum með ítrekaðar tillögur um að fara betur með peningana og passa að ekki sé misfarið með þá, passa að þeir skili sér þangað sem þeir eiga að skila sér sem þýðir líka að það þarf minni skattheimtu í kjölfarið. Bæði þeir sem vilja minni skatta og þeir sem vilja að það fjármagn sem er í ríkissjóði geti skilað sér í þau mál sem okkur er annast um, velferðarmál, heilbrigðiskerfið og slíkt, ættu að geta verið sammála um þetta.

Spyrjið: Hvers vegna viljið þið ekki gera þetta?

Það er mjög einkennilegt, en þegar í ljós kemur hversu illa hefur verið farið með skattfé í þessum leiðum ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og annað, (Forseti hringir.) er það á ábyrgð þessara stjórnarflokka.