150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[19:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég stend að þessum breytingartillögum og styð þær að sjálfsögðu. Mig langar við þetta tækifæri að segja að ég held að náðst hafi einkar góð samstaða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og mig langar til að þakka þeim hv. þingmönnum sem sitja þar með mér. Sérstaklega vil ég fá að nota tækifærið og þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni, formanni nefndarinnar, fyrir að leiða þetta starf.

Þær breytingartillögur sem við greiðum hér atkvæði um ganga að megninu til út á að víkka enn frekar þær hugmyndir sem ríkisstjórnin kynnti þegar kom að lokunarstyrkjum og sérstaklega stuðningslánunum. Nú eru þetta orðnar enn breiðari og víðtækari aðgerðir til handa fyrirtækjum sem lent hafa í miklu tekjufalli vegna kórónuveirunnar.

Mig langar til að segja, virðulegur forseti, út af þeirri umræðu sem skapaðist hér áðan að farið var gaumgæfilega yfir það í nefndinni hvernig mætti tryggja að þeir sem nota þessa styrki og lán greiði að sjálfsögðu fulla skatta á Íslandi. Breytingartillögur sem við gerum enn frekar eru til að tryggja það þannig að sá málflutningur sem haldið var fram hérna áðan á einfaldlega ekki við rök að styðjast.