150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

frumvarp um einkarekna fjölmiðla.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi einkarekinna fjölmiðla í opnu nútímasamfélagi fyrir frjálsa umræðu, fyrir aðgang að upplýsingum og fréttum, fyrir vettvang skoðanaskipta, já, fyrir sjálft lýðræðið, íslenska tungu, íslenska menningu og að sjálfsögðu fyrir allt það fólk sem þar starfar af fagmennsku og hefur langa og dýrmæta reynslu að baki en sér nú fram á að lífsstarfi þess er ógnað. Það þarf heldur ekki að minna á að vandi einkarekinna fjölmiðla var ærinn áður en krónuveiran setti allt á annan endann og síðan hefur þessi vandi margfaldast.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um frumvarp hennar sem átti að taka á vanda einkarekinna fjölmiðla fyrir tíma krónuveirunnar, en hefur nú um hríð verið statt einhvers staðar í rangölum allsherjar- og menntamálanefndar þar sem Sjálfstæðismenn sem þar ráða för hafa ekki verið beinlínis geislandi af ákefð að koma þessu máli áfram þó að það sé samkvæmt stjórnarsáttmála og þó að meiri hluti sé alveg áreiðanlega fyrir þessu máli hér inni.

Hvað finnst hæstv. ráðherra um þessi vinnubrögð samstarfsflokksins sem áður hafði samþykkt frumvarpið í þingflokki og ríkisstjórn? Telur hún að það dugi að fara leið Sjálfstæðismanna, eins og hún hefur verið unnin hér á vettvangi þingsins til að taka á vanda einkarekinna fjölmiðla? Telur ráðherrann mikilvægt að frumvarp hennar um vanda einkarekinna fjölmiðla nái fram að ganga á þessu þingi og telur ráðherrann það líklegt?